Verkefni

Háskólinn á Akureyri, 5. áfangi

  • Verkkaupi: Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Staða: Verkefni lokið
  • Verkefnisnúmer: 602 0925
  • Verkefnastjóri: Sigurður Hlöðversson

Um verkefni

Framkvæmdum við 5. áfanga Háskólans á Aureyri er lokið. Þær voru boðnar út og voru tilboð opnuð 3. júlí 2012. Tekið var tilboði SS byggis ehf. þann 14. ágúst 2012. Áfanginn er nýbygging, um 750 fermetrar að stærð. Þar eru nú skrifstofur, auk tengigangs og smærri stoðrýma. Framkvæmdin var hefðbundin verkframkvæmd, uppsteypt hús og fullnaðarfrágangur innanhúss sem utan og frágangur á lóð umhverfis nýbygginguna. 

Verkkaupi var mennta- og menningarmálaráðuneytið. Umsjón með framkvæmdum hafði Framkvæmdasýsla ríkisins, verkefnastjóri hjá FSR var Sigurður Hlöðversson. Arkitekt var Gláma/Kím Arkitektar Laugavegi 164 ehf. Almenna verkfræðistofan hf. vann hönnun jarðvinnu, burðarþols og lagna. Raftákn ehf. hannaði raflagnir. Verktaki var SS byggir ehf.

Frumathugun

Frumathugun var unnin af Glámu/Kím arkitektum. Uppbygging á húsnæði Háskólans á Akureyri hefur fylgt skipulagi háskólasvæðisins sem grundvallað var á niðurstöðu samkeppni um heildarskipulag skólans. Búið er að ljúka fyrstu fjórum áföngum framkvæmdanna. Frumathugun vegna 5. áfanga náði til nýbygginga sem fyrirhugaðar voru fyrir skrifstofur, auk tengigangs og smærri stoðrýma. Með áfanganum var leitast við að leysa þá húsnæðisþörf sem var aðkallandi. Í þessum áfanga, eins og þeim fyrri, var gert ráð fyrir að lóðarfrágangur fylgdi viðkomandi byggingu.

Áætlunargerð

Arkitekt var Gláma/Kím Arkitektar Laugavegi 164 ehf., Almenna verkfræðistofan hf. vann hönnun jarðvinnu, burðarþols- og lagna, Raftákn ehf. hannaði raflagnir. 5. áfangi var hluti af upprunalegu skipulagi. Áfanginn var hannaður af sömu ráðgjöfum og fyrri áfangar. Arkitekt var Gláma/Kím Arkitektar Laugavegi 164 ehf., EFLA vann brunahönnun, Landslag annaðist lóðarhönnun, Almenna verkfræðistofan hf. vann burðarþol og lagnahönnun. Raftákn ehf. hannaði raflagnir. 

Á aðalteikningum kemur fram að nýbygging O muni hýsa skrifstofur, fundarherbergi, kaffieldhús, stiga og stoðrými og bygging T er tengigangur sem mun tengjast núverandi tengigangi á öllum hæðum. Nýbyggingarnar eru steinsteyptar, einangraðar að utan og klæddar múrkápu. Á byggingunni er lítið hallandi þak, einangrun og dúkur eða pappi ofan á steypta plötu. Gólf- og þakplötur eru ýmist úr forsteyptum einingum eða staðsteyptar. Plasteinangrun er undir gólfplötum á fyllingu. Gluggar og hurðir eru úr álkerfi. Innveggir og loftaklæðningar eru gipsplötur á blikkgrind. Upphitun verður með gólfhita og ofnum og náttúruleg loftræsing er í O álmu. Stærð 5. áfanga er 751,7 fermetrar.

Verkleg framkvæmd

Í lauslegu yfirliti yfir verkið, í útboðs- og samningsskilmálum, kemur meðal annars fram að um 5. áfanga í uppbyggingu húsnæðis Háskólans á Akureyri sé að ræða. Byggt sé á grunni upphaflegrar samkeppnistillögu. Nýbyggingin sé um 750 m² að stærð og staðsett á lóð Háskólans við Norðurslóð á Akureyri. Í þessum áfanga verði byggðar skrifstofur, auk tengigangs og smærri stoðrýma. Einnig verði frágangur á lóð umhverfis byggingu í þessum áfanga.

Framkvæmdin var hefðbundin verkframkvæmd, uppsteypt hús og fullnaðarfrágangur innanhúss sem utan. Verkið var auglýst til útboðs á vef Ríkiskaupa.
 
Framkvæmdasýsla ríkisins, fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytis, óskaði eftir tilboðum í verkið. Auk þess sem framan greinir eru nefndar helstu magntölur: Uppgröftur 3.245 m³ (rúmmetrar), fylling 2.290 m³, mót 2.200 m² (fermetrar), bendistál 30.765 kg (kílógrömm), steypa 385 m³ og forsteyptar einingar 380 m². Verkinu skal vera að fullu lokið eigi síðar en 16. ágúst 2013. 

Tilboð voru opnuð 3. júlí 2012. Kostnaðaráætlun var 217.729.082 krónur. Tilboði verktakans SS byggir ehf. var tekið þann 14. ágúst 2012. Verktaki hóf framkvæmdir þann 20. ágúst 2012 og var húsnæðið tekið í notkun í lok ágúst 2013.

Á árinu 2015 voru nokkrir erfiðleikar með snjóbræðslukerfið. Í ljós kom að leki var á snjóbræðslulögnum í 4. áfanga verksins og var skipt um bæði dælubúnað og varmaskipti til að fá kerfið til að virka. Einnig fékkst leyfi ráðuneytisins til að útbúa bílastæði sem ekki voru á áætlun. Framkvæmdum þessum lauk öllum haustið 2015.

Skilamat

Skilamat um Háskólann á Akureyri, 5. áfangi, var unnið samkvæmt lögum um skipan opinberra framkvæmda. Framkvæmdir voru unnar á tímabilinu 2012 til 2013, auk 2015. Skilamatið og öll útgefin skilamöt/skilagreinar/skilablöð má finna á vef FSR undir Útgefið efni.