Verkefni

Snæfellsstofa, Vatnajökulsþjóðgarði

 • Verkkaupi: Stofnanir
 • Staða: Verkefni lokið
 • Verkefnisnúmer: 614 2120
 • Verkefnastjóri: Guðbjartur Á. Ólafsson
 • Stærð mannvirkis: 752 fermetrar
 • Tímaáætlun: Verklok haust 2010
 • Snæfellstofa, Vatnajökulsþjóðgarði

Um verkefnið

Vatnajökulsþjóðgarður nær yfir umfangsmikið svæði, eða um 13.700 ferkílómetra, sem gera um 13% af flatarmáli Íslands. Þjóðgarðurinn er einn sá stærsti í heimi. Við stofnun þjóðgarðsins árið 2008 var stefnt að því að efla starfsemina með því að byggja upp ýmiss konar þjónustuaðstöðu.

Vatnajökulsþjóðgarði er skipt upp í sex rekstrarsvæði: Skriðuklaustur, Kirkjubæjarklaustur, Mývatnssveit, Hornafjörð, Skaftafell og Ásbyrgi. Áætlað er að gestastofur rísi á þessum stöðum, en í Skaftafelli og í Ásbyrgi eru nú þegar gestastofur. Snæfellsstofa á Skriðuklaustri er fyrsta framkvæmdin. 

Auk framkvæmda við bygginguna fólst verkefnið í mótun og frágangi stórrar lóðar, meðal annars að leggja heimreið, akstursbrautir og bílastæði. Einnig að byggja hreinsimannvirki (40.000 lítra rotþrær), leggja vatnsveitulagnir og rafmagnsheimtaug. 

Verkkaupi var Vatnajökulsþjóðgarður, sem er stofnun umhverfisráðuneytis. Hlutverk þjóðgarðsins er að standa vörð og vernda Vatnajökul og landsvæði honum tengd.  

Frumathugun

Framkvæmdasýsla ríkisins vann frumathugun um gestastofur Vatnajökulþjóðgarðs árið 2007 í samstarfi við umhverfisráðuneytið og fulltrúa í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs.

Frumathugun leggur áherslu á uppbyggingu þjónustunets sem samanstendur af fjórum nýjum gestastofum, sem jafnframt eru skrifstofur þjóðgarðsvarða, starfsstöðvar landvarða og upplýsingastöðvar.

Rýmisþörf hverrar gestastofu er áætluð um 550 til 600 m² sem rýmir móttöku, sýningar, skrifstofur, fundarherbergi, gestasalerni og veitingastofu. 

Einnig var lagt til að haldin yrðir hönnunarsamkeppni um gestastofurnar. 

Áætlunargerð

Fjármálaráðuneytið heimilaði umhverfisráðuneytinu, með bréfi dagsettu 20. desember 2007, að hefja mætti áætlunargerð fyrir umrædda framkvæmd og að haldin skyldi samkeppni um hönnun mannvirkjanna.  

Hönnunarsamkeppni

Þann 6. janúar 2008 var hönnunarsamkeppnin auglýst.

Dómnefnd var skipuð af fimm fulltrúum, tveir frá Arkitektafélagi Íslands, þeir Ingimundur Sveinsson og Páll Hjaltason, og þrír fulltrúar verkkaupa, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Gísli Sverrir Árnason og Þórunn Pétursdóttir. Trúnaðar- og umsjónarmaður samkeppninnar var Gísli Þór Gíslason, verkefnastjóri hjá Ríkiskaupum. Þráinn Sigurðsson var verkefnastjóri Framkvæmdasýslu ríkisins á stigi áætlunargerðar. 

Vinningstillaga Arkís 

Alls bárust sex tilllögur, þar sem tillaga Arkís ehf. hlaut fyrstu verðlaun, en höfundar voru Birgir Teitsson og Arnar Þór Jónsson. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars:

 „Úthugsuð og öguð tillaga. Aðkoma og tenging við útisvæði vel leyst. Byggingin situr vel í landinu. Fyrirkomulag opið og sveigjanlegt og rýmisnýting góð ... Hugmyndir um efnisval sannfærandi... Framúrskarandi skýr og vel sett fram tillaga.“

Hönnun

Gestastofan er ein hæð og kjallari og hýsir þjónustumiðstöð þjóðgarðsins með sýningar- og kennsluaðstöðu, auk rýma fyrir starfsmenn, svo sem skrifstofur, geymslur og aðstöðu fyrir þjóðgarðsverði. Norðan við gestastofuna er stakstætt geymsluhús, byggt inn í brekkuna. Í geymsluhúsinu er bíla- og tækjageymsla. Gestastofan er því 683,4 m² og geymsluhúsið 68,3 m². Heildarflatarmál er því 751,7 m² og heildarrúmmál 3.071 m³. 

Við hönnun er litið til þess að byggingin sitji vel í landinu og falli vel að náttúrulegu umhverfi sínu, bæði með formi og efnisvali. Byggingin er steinsteypt með sjónsteypuáferð að hluta og klætt með lerkitimbri og koparplötum. Gluggar eru úr áli og þak úr léttum þakeiningum með þakdúk og koparklæðningu. 

Vistvæn hönnun mannvirkis

Í upphafi verkefnisins var lögð áhersla á vistvæn sjónarmið og ákveðið að hönnun og framkvæmd skyldi uppfylla viðurkennda erlenda staðla. Fyrir valinu var BREEAM vottunarkerfið.

Vottunarkerfið hafði ýmis áhrif á hönnunina. Auka þurfti einangrun og loftþéttleika til að mæta viðmiðum um hámarksorkunotkun og lágmarka þörf á kælingu, ásamt því að velja þurfti lausnir sem krefjast minni orku á rekstrartíma, svo sem vatnssparandi blöndunartæki og salerni, og hússtjórnarkerfi til að fylgjast með notkun vatns og orku. 

Í samráði við hönnuði voru unnir  útboðs- og samningsskilmálar sem tóku mið af þeim vistvænu markmiðum í hönnun samkvæmt BREEAM kröfum. Þar voru skilgreindar kröfur um virka umhverfisstjórn sem felst í vöktun og skráningu, fyrirbyggjandi verklagi, aðgerðum til að lágmarka umhverfisáhrif, efnisval og efnisvottun, svo og fræðslu. Kröfur voru gerðar til verktaka um að hann setji sér stefnu varðandi innkaup og markmið um lágmörkun notkunar orku á byggingarstað. Verktaka var gert að huga að því hvernig lágmarka mætti flutninga byggingarefna, skilgreina aðgerðir til þess að vernda vistkerfi og draga úr rykmengun og viðhafa virka umhverfisstjórnun á vinnusvæðinu á framkvæmdatíma. 

Varðandi eftirlit voru áhersluatriði vel skilgreindar kröfur um að sá sem sæi um eftirlit hafi þekkingu á markmiðum vistvænna bygginga, vinni undir gæðastjórnunarkerfi og eftir gátlistum BREEAM.

Hönnunargögn vegna staðfestingar á árangri hönnunarinnar samkvæmt BREEAM voru við lok hönnunar lögð inn til BRE Global Ltd. til yfirferðar. Var vottun um að hönnunin hafi uppfyllt markmiðið „Very good“ staðfest 11. janúar 2012.

Listaverk

 

Veraldarhjólið

Á jörðinni Skriðuklaustri bjó um 1840 bóndi sem þar reisti mylluhjól í læk. Lækurinn átti upptök sín í kaldavermslum og fraus því ekki á vetrum. Sveitungar hans nefndu þetta „Veraldarhjólið“ þar eð það snerist árið um kring, nótt sem nýtan dag. Listaverki var komið fyrir í grennd við Snæfellsstofu og nefnist einnig Veraldarhjólið. Það er eftir Hjörleif Stefánsson. 

 

 

Verkleg framkvæmd

Fjármálaráðuneytið heimilaði, með bréfi dagsettu 4. apríl 2009,  að hefja verklegan hluta framkvæmdarinnar. Boðin var út framkvæmdin Gestastofa á Skriðuklaustri. 

Vakin var sérstök athygli á því í útboðinu, að verkkaupi hygðist fá alþjóðlega umhverfisvottun samkvæmt BREEAM á nýbygginguna en slíkt vottunarferli tekur til allrar framkvæmdarinnar og allra verktaka á framkvæmdatíma. Í þessu felst að aðalverktaki skuldbindur sig og undirverktaka til að vinna samkvæmt verklagi sem er jafngott eða betra en best þekkist. Byggingin er fyrsta byggingin á Íslandi sem byggð er með þessum markmiðum. 

Helstu magntölur     
Gröftur
Steinsteypa
Stál
Þakeiningar
Koparklæðning
27.000
  1.065
56.000
     280
     660
m3
m3
kg
m2
m2

Tilboð voru opnuð 28. apríl 2009 og var tilboði Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar ehf. tekið að fjárhæð 253.434.633 krónur eða 95,8% af kostnaðaráætlun. 

Upphaf verks var við töku tilboðs 3. júní 2009 en framkvæmdir hófust ekki á verkstað fyrr en í 1. viku í júlí með uppsetningu aðstöðu. Verklok samkvæmt verksamningi áttu að vera 15. maí 2010 en samningar um sýningu og margmiðlunarbúnað sýningar gengu út frá að sýningarhald hæfist 1. júní 2010.

Vistvæn framkvæmd

Í verklok var unnin samantekt á meginatriðum varðandi BREEAM-ferlið og lögð fram skýrslan „Snæfellsstofa á Skriðuklaustri. Niðurstöður umhverfisvöktunar“, útgefin í desember 2010. Skýrslan var tekin saman af Guðríði Guðmundsdóttur, gæða- og öryggisstjóra VHE ehf., og yfirfarin af Guðbjarti Á. Ólafssyni, verkefnastjóra FSR, og Helgu J. Bjarnadóttur hjá Eflu í samræmi við BREEAM vottunarferlið.

Ýmsar niðurstöður skýrslunnar eru athyglisverðar fyrir byggingarvinnusvæði. Má í því sambandi nefna niðurstöður mælinga á eftirfarandi umhverfisþáttum:

 • Raforkunotkun á verktíma
 • Eldsneytisnotkun á vinnusvæði
 • Eldsneytisnotkun við flutninga
 • Notkun á köldu vatni á verktíma
 • Úrgangsstjórnun vinnusvæðis

Þessi virka umhverfisstjórnun gekk út á að skilgreina markmið, vakta og skrá niður árangurinn og bregðast við því sem betur mætti fara. 

Sem dæmi um uppfyllt markmið var að timbur í klæðningar utanhúss kæmi úr nálægum skógi sem nýttur væri á sjálfbæran hátt. Áskilið var í útboðsgögnum að verktaki gengi inn í tilboð Skógræktar ríkisins á Héraði um lerkikaup. Var gengið til samninga við Skógræktina en hönnuðir þurftu að aðlaga hönnun sína að þeim lengdum og þykktum sem mögulegt var að fá í svo miklu magni úr íslenskum trjám.

Verklok

Þann 24. júní 2010 fór fram öryggisúttekt vegna húshlutans og 30. september sama ár var formleg verklokaúttekt. Skilamat fyrir framkvæmdina var gefið út í desember 2014. 

Skilamat

Skilamat um Snæfellsstofu, Vatnajökulsþjóðgarði, var unnið samkvæmt lögum um skipan opinberra framkvæmda. Framkvæmdirnar voru unnar á árunum 2009 til 2010. Skilamatið og öll útgefin skilamöt/skilagreinar/skilablöð má finna á vef FSR undir Útgefið efni.