Verkefni

Hringbrautarverkefnið

  • Verkkaupi: Stofnanir
  • Staða: Í áætlunargerð
  • Verkefnisnúmer: 633 2000

Um verkefnið

Hringbrautarverkefnið, nýr spítali allra landsmanna, er stærsta notendastudda hönnunarverkefni Íslandssögunnar. Notendur hafa frá upphafi leikið stórt hlutverk í undirbúningi hönnunar nýbygginga fyrir nýjan Landspítala. 

Um NLSH

Nýr Landspítali ohf. (NLSH) er opinbert hlutafélag sem hefur það að markmiði að standa að nauðsynlegum undirbúningi og láta bjóða út byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík. NLSH tók til starfa 1. júlí 2010 í kjölfar þess að Alþingi samþykkti lög um stofnun félagsins. Við undirbúning spítalaverkefnisins var miðað við að efnt yrði til alútboðs um verkefnið og að ríkið tæki byggingarnar á langtímaleigu. Frá því var horfið árið 2013 og samþykkti Alþingi, þann 28. mars 2013, breytingu á lögum um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Breytingin felur í sér að um hefðbundið útboð á vegum hins opinbera verður að ræða en ráðherra er þó heimilt að ákveða að tilteknir skýrt afmarkaðir minni byggingarhlutar eða byggingar séu boðnir út í formi langtímaleigu. Þá er heimilað að hefja forval vegna undirbúnings útboðs fullnaðarhönnunar þótt það sem eftir stendur af lagabreytingunni taki ekki gildi fyrr en 1. september 2013.

Spítalaverkefnið 2008-2010

Í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi 2008 var horfið frá fyrri áformum um byggingu nýs háskólasjúkrahúss við Hringbraut. Spítalaverkefninu var hleypt af stokkunum á nýjan leik í nóvember 2009 með undirritun viljayfirlýsingar forsætis-, fjármála- og heilbrigðisráðherra og lífeyrissjóða um fjármögnun verkefnisins. Í framhaldinu var NLSH komið á laggirnar og efnt til hönnunarsamkeppni og hönnunarútboðs vorið 2010 þar sem SPITAL-hópurinn svokallaði var hlutskarpastur. Spítalaverkefnið er samstarfsverkefni NLSH, Landspítala (LSH) og Háskóla Íslands (HÍ).

Forhönnun/frumhönnun SPITAL hópsins 2010-2012

Hönnunarsamkeppni fór fram um áfangaskipt heildarskipulag fyrir svæðið annars vegar og hins vegar tillögu að frumhönnun að 1. áfanga spítalaverkefnisins, sem samanstendur af spítalastarfsemi í 66 þúsund fermetra nýbyggingu og háskólastarfsemi í allt að 10 þúsund fermetra nýbyggingu. Forval var auglýst í árslok 2009 og bárust umsóknir frá sjö teymum. Fimm stigahæstu teymunum var boðið að taka þátt í samkeppninni. 

Tillögum var skilað í júní 2010 og voru úrslit tilkynnt mánuði síðar. Niðurstaða dómnefndar var að allar tillögurnar væru metnaðarfullar og vel fram settar þar sem gamli spítalinn nyti sérstöðu sinnar. Einróma niðurstaða nefndarinnar var þó að velja tillögu SPITAL og vinnur hópurinn nú að útfærslu vinningstillögunnar, samkvæmt samningi sem gerður var við NLSH í lok ágúst 2010 um frumhönnun og gerð alútboðsgagna. Tekur samkomulagið til deiliskipulags Landspítalalóðarinnar ásamt umhverfismats áætlana og frumhönnun nýbygginga. 

Þar er um að ræða: 

Fullnaðarhönnun sjúkrahótels 2013-2014

Forval fyrir hönnunarútboð sjúkrahótels og bílastæðahúss, útboð nr. 15452, annars vegar og forval meðferðarkjarna og rannsóknarhús, útboð nr. 15453, hins vegar, var auglýst í apríl 2013. Niðurstöður voru tilkynntar í ágúst 2013. Lokað útboð fullnaðarhönnunar sjúkrahótels var auglýst í maí 2014, útboð nr. 15657. 

Útboð á fullnaðarhönnun meðferðarkjarna 2015

Form útboðs var tveggja umslaga kerfi. Útboðsnúmer var 15804. Fjögur tilboð bárust frá Verkís, TBL, Grænaborg, Corpus 3 og Mannvit hf. Lægsta tilboðið var frá Corpus 3 sem samanstendur af VSÓ verkfræðistofu, VJI verkfræðistofu, Hornsteinum arkitektum og Basalt arkitektum. Sjá nánari umfjöllun um meðferðarkjarnann hér.

Forval um fullnaðarhönnun rannsóknarhúss 2016

Forval fyrir hönnunarútboð rannsóknarhúss, nr. 20427, var auglýst í byrjun október 2016. Fyrirhugað er lokað útboð á fullnaðarhönnun rannsóknarhúss í desember 2017 á grundvelli niðurstaðna forvals. 

Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vefsíðu Nýs landspítala og hjá verkefnastjóra FSR. 

Frumathugun

Upplýsingar um frumathugun og forhönnun er meðal annars í skilagrein FSR hér.