Verkefni

Menntaskólinn við Sund - Viðbygging

  • Verkkaupi: Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Staða: Framkvæmd lokið
  • Verkefnisnúmer: 602 7500
  • Verkefnastjóri: Gunnar Sigurðsson

Um verkefnið

Í samræmi við yfirlýsingu milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar frá nóvember 2010 um samstarf í húsnæðismálum framhaldsskóla í borginni var ákveðið að farið yrði í brýnustu framkvæmdir við Menntaskólann við Sund. Þær fólu í sér stækkun skólans í samræmi við nemendafjölda, auk bætts aðgengis milli álma skólans, sem eru frá ýmsum tímum, bætts aðgengis fatlaða með uppsetningu lyftu í húsið, bættri salernisaðstöðu og úrbætur vegna eldvarna. 

Frumathugun

Unnin var frumathugun um verkefnið hjá FSR, að undangenginni þarfagreiningu. Þar var niðurstaðan sú að viðbyggingin þyrfti að vera um 2700 m2, auk einhverra afleiddra breytinga á núverandi húsnæði. Ákveðið var að halda arkitektasamkeppni til lausnar verkefninu. Góð þátttaka var í samkeppninni og bárust 19 áhugaverðar tillögur. Niðurstaða fékkst í október 2012 þegar dómnefnd valdi tillögu frá Skipark arkitektum í 1. sæti.

Hönnunarsamkeppni

Framkvæmdasýsla ríkisins, fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytis og Framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar, bauð til opinnar hönnunarsamkeppni um viðbyggingu við Menntaskólann við Sund. Samkeppnin fór fram í samvinnu við Arkitektafélag Íslands og var auglýst á EES-svæðinu. Veitt voru þrenn verðlaun að heildarfjárhæð 8 milljónir króna. Skilafrestur var 12. september 2012. Niðurstöður voru kynntar og verðlaun afhent 25. október 2012 í hönnunarsamkeppni um viðbyggingu við Menntaskólann við Sund. Afhendingin verðlauna fór fram við athöfn í sal menntaskólans í viðurvist Katrínar Jakobsdóttur, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, fulltrúa Reykjavíkurborgar og margra annarra gesta.
 
Alls bárust 19 tillögur frá íslenskum og erlendum stofum. Meðal þess sem áhersla var lögð á í samkeppninni var samspil viðbyggingarinnar við núverandi byggingar á lóð skólans og að skapa skólastarfinu góða umgjörð. Fyrstu verðlaun hlaut Skipulags-, arkitekta- og verkfræðistofan ehf. (Gestur Ólafsson, arkitekt og skipulagsfræðingur, Akos Doboczy, arkitekt  Zoltán V. Horváth, arkitekt). Ráðgjöf veittu Vist og vera ehf. (Kristín Þorleifsdóttir PhD), Verkfræðistofa Erlends Birgissonar ehf. (Erlendur Birgisson) og VSI-öryggishönnun og ráðgjöf ehf. (Gunnar Kristjánsson). 

Áætlanagerð

Viðbyggingin er tveggja hæða hálf þriðja hæð að Gnoðarvogi, einnar hæðar fjölnota salur í miðju skólans með mötuneyti fyrir bæði nemendur og starfsfólk. Hluti viðbyggingarinnar er einnig þriggja hæða tengigangur milli tveggja núverandi bygginga. Í viðbyggingunni verða tvær lyftur, sem vantað hefur alveg í skólann. Auk nýrrar viðbyggingar verða framkvæmdar breytingar á um 850 m2 í eldra húsnæðinu. 

Heildarstærð viðbyggingarinnar er 2.832 m Heildarstærð skólans eftir stækkun verður því um 7.800 m2

Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdirnar eru um 1,1 milljarður króna. Kostnaðarskipting milli ríkisins og Reykjavíkurborgar er 60/40. 

Aðferafræði BIM var beitt við hönnun hússins. 

Verkleg framkvæmd

Sumarið 2013 voru jarðvegsframkvæmdir boðnar út. Tilboð voru opnuð þann 30. júlí og var tilboði verktakans Urð og grjót ehf. tekið þann 19. ágúst. Tilboðið hljóðaði upp á 21.909.000 krónur og var 87,09% af kostnaðaráætlun. 

Snemma árs 2014 var framkvæmdin í viðbygginguna boðin út. Tilboð voru opnuð þann 11. mars 2014 og var verktakinn JÁVERK ehf. hlutskarpastur. Tilboði þeirra var tekið 14. apríl 2014. 

Áætluð verklok voru árslok 2015. Það náðist ekki og fór árið 2016 að mestu í það að reyna að ljúka óloknum verkþáttum og lokaúttekt byggingarfulltrúa. Verkinu lauk um áramótin 2016/2017. Þá var töluvert um galla og ólokna verkþætti í byggingunni sem eru í uppgjörsferli. Verkefnið hefur verið í lögfræðiferli vegna uppgjörs við verktaka og galla í verkinu.

Aðferðafræði BIM var beitt við framkvæmdir.