Verkefni

Þjóðleikhúsið - viðbygging

  • Verkkaupi: Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Staða: Framkvæmd lokið
  • Verkefnisnúmer: 602 0604
  • Verkefnastjóri: Guðbjartur Á. Ólafsson
  • Tímaáætlun: Áætluð verklok 20. desember 2013

Um verkefnið

Lengi hefur staðið til að gera aðkallandi endurbætur baksviðs í Þjóðleikhúsinu. Endanleg lausn með viðbyggingu hefur verið skoðuð, en er talin mjög kostnaðarsöm. Að beiðni Þjóðleikhúss og mennta- og menningarmálaráðuneytis var ákveðið að taka til athugunar einfaldari lausn með bráðabirgðaviðbyggingu til úrlausnar á brýnni þörf á betri aðstæðum baksviðs fyrir leikmyndagerð og tæknibúnað. Garðar Halldórsson arkitekt var fenginn til verksins, en hann hefur, frá því að hann var húsameistari ríkisins, haft umsjón með breytingum og lagfæringum á Þjóðleikhúsinu. Guðjón Samúelsson arkitekt teiknaði Þjóðleikhúsið. 

Lokaúttekt og afhending fór fram 20. desember 2013.

Frumathugun

Frumathugun var unnin í febrúar 2013. Arkitektar höfðu þá unnið nokkrar lausnir í samvinnu við notendur. Hagstæðasti kosturinn var bráðabirgðaviðbygging til austurs, sem byggð yrði ofan á núverandi kjallara, sem skagar þar út frá aðalbyggingu ofan á smíðaverkstæðið. Viðbyggingin er fyrst og fremst hugsuð fyrir bætta aðflutninga leikmyndar og búnaðar til og frá húsinu ásamt geymsluaðstöðu. Til hagræðingar var opnað niður í smíðaverkstæðið og vörulyftu komið fyrir. Við þessar endurbætur varð framkvæmdin nokkuð kostnaðarsamari en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. 

Viðbygging við eina merkustu byggingu landsins er mjög vandasamt verk, jafnvel þó til bráðabirgða sé hugsuð. Vandað var því mjög til verks hvað ytra byrði byggingarinnar snertir, en innandyra er allt með einfaldasta móti. Leitað var álits Húsafriðunarnefndar ríkisins á útliti viðbyggingarinnar og féllst hún á framanlagða tillögu. 

Áætlunargerð

Arkitektastofa Garðars Halldórssonar var fengin til að fullhanna arkitektahluta viðbyggingarinnar, ásamt því að fá samþykkt örlitla breytingu á deiliskipulagi vegna hennar. 

Viðbyggingin var samþykkt hjá byggingarfulltrúa Reykjavíkur 2. ágúst 2013. Ákveðið var að halda alútboð um verkframkvæmd við byggingu og verkfræðihönnun hennar. Alútboðið var auglýst 8. júní 2013 og verklok fyrirhuguð 1. desember 2013. 

Verkleg framkvæmd

Tilboð í verkið voru opnuð 25. júní 2013 og hljóðaði kostnaðaráætlun upp á 50.766.000 krónur. 

Tvö tilboð bárust en aðeins annað þeirra var gilt. Þann 9. júlí 2013 var tilboði ÍAV tekið, að fjárhæð  55.647.337 krónur, sem var 109,6% af kostnaðaráætlun. 

Byggingin er límtrésbygging, klædd að utan með læstri zinkklæðningu, tengd Þjóðleikhúsinu með inndregnum hálsi, klæddum gatastáli. Til norðurs er stór vöruhurð við lyftugatið og gönguhurð verður til austurs við suðaustur horn. Uppbygging þaks ofan á aðalburðarvirki hússins voru timbursperrur með krossviðarklæðningu undir viðurkennt þakdúksefni. 

Á smíðaverkstæðinu á 1. hæð, í kjallara og þar sem viðbyggingin liggur upp að aðalbyggingunni, voru gerðar ýmsar breytingar, þar á meðal var hurðargat inn í leikmunageymslu stækkað.
 
Verktaki hóf undirbúning framkvæmda í júlí 2013 með burðarþolshönnun og skipulagi vinnusvæðis. Um miðjan ágúst var byrjað að undirbúa og mæla út fyrir húsinu og í framhaldi af því var slegið upp fyrir sökkulveggjum. 

Aðstöðusköpun var lokið 28. ágúst og beðið eftir byggingarleyfi til að byrja á sökkuluppslátti. Byggingarleyfi var gefið út 12. september 2013 og í framhaldi af því voru sökklar steyptir 19. september og burðarveggur í kjallara 2. og 3. október. Uppsetningu stálvirkis fyrir milligólf og reising límtrésramma er lokið. 

Lokaúttekt og afhending fór fram 20. desember 2013.