Verkefni

Hjúkrunarheimili í Fjarðabyggð

  • Verkkaupi: Velferðarráðuneytið
  • Staða: Framkvæmd lokið
  • Verkefnisnúmer: 607 8700
  • Verkefnastjóri: Jón R. Sigmundsson
  • Hjúkrunarheimilið Eskifirði

Um verkefnið

Á Eskifirði hefur verð starfrækt dvalar- og hjúkrunarheimili við Hulduhlíð, þar sem eru 18 hjúkrunarrými og 6 dvalarrými. Þörf hefur verið á lítils háttar fjölgun, en fyrst og fremst nútímalegri aðstöðu hjúkrunarheimilis aldraðra á Eskifirði. 

Frumathugun

Niðurstöður frumathugunar, sem dagsett er í júní 2009, eru meðal annars þær að byggja nýtt hjúkrunarheimili við Dalbraut 1, Eskifirði, samkvæmt viðmiðum félags- og tryggingamálaráðuneytis um skipulag hjúkrunarheimila frá nóvember 2008. Þar er meðal annars miðað við litlar, heimilislegar einingar þar sem er rúmgott einkarými fyrir hvern og einn en jafnframt sameiginlegt rými fyrir íbúa og starfsfólk hverrar einingar með eldunaraðstöðu, borðstofu og dagstofu. Í byggingunni verði 20 hjúkrunarrými og 3 einingar, brúttóstærð húss verði að hámarki 1.500 fermetrar. Enn fremur er niðurstaða frumathugunar að fram skuli fara hönnunarsamkeppni um skipulag lóðarinnar og útfærslu byggingarinnar.

Samkeppni

Í mars 2010 var auglýst eftir lausnum fyrir nýtt Hjúkrunarheimili í Fjarðabyggð. Sex tillögur bárust. Þann 9. júlí voru úrslit kynnt á Eskifirði. 

1. verðlaun hlaut tillaga Einrúm arkitekta

2. verðlaun hlaut tillaga Studio Strik – Arkitekta

3. verðlaun hlaut tillaga Hjördísar og Denna arkitektar. 

Í framhaldi af hönnunarsamkeppninni var búist við að höfundar tillögunnar sem hlutu 1. verðlaun hlytu hönnunarverkefnið. Svo varð ekki því kærunefnd útboðsmála úrskurðaði að þar sem einn dómnefndarmanna tengdist höfundum vinningstillögunnar hefði verið ranglega staðið að verðlaunaafhendingunni. Þar með voru höfundar tillögunnar sem hlutu 2. verðlaun komnir í fyrsta sæti. Var samið við þá, það er Studio Strik – Arkitekta, Teiknistofuna Storð landslagsarkitekta og VSÓ ráðgjöf, á grundvelli samkeppnistillögu þeirra. Hönnunarsamningur var gerður í nóvember 2010.


Áætlunargerð

Hjúkrunarheimilið skiptist niður í 3 heimili með samtals 20 hjúkrunarrýmum. Ýmis stoðrými tengjast heimilunum, en hvert þeirra samanstendur af einkarými fyrir hvern sjúkling, ásamt sameiginlegu rými með eldunaraðstöðu, borð- og setustofu. Útgengt er beint út í garð, bæði úr einkarýmum og sameiginlegum rýmum. 

Burðarvirki er mest úr steinsteypu. Efnisval og form undirstrika skipulag byggingarinnar. Húshlutar með háum mænisþökum sem hýsa heimili íbúanna eru steinsteyptir en klæddir með standandi lerki klæðningu og þökin með torfi. Verkefnið var hannað eftir aðferðafræði BIM og verður sóst eftir vistvænni vottun eftir BREEAM. 

Lóðin er hönnuð með sérþarfir aldraðra og hreyfihamlaðra í huga. Á norðanverðri lóðinni er landið mótað í samræmi við nauðsynlegar ráðstafanir vegna snjóflóðahættu á svæðinu. 

Brúttóflötur byggingarinnar er 1.497 m2 og brúttórúmmál 7.358 m3

Umsögn um áætlunargerð til fjármálaráðuneytisins var veitt í september 2011. 

Listskreyting við Hjúkrunarheimilið á Eskifirði

Haldin var lokuð samkeppni um listskreytingu við Hjúkrunarheimilið á Eskifirði. Fjórum listamönnum var boðið að taka þátt, Guðjóni Ketilssyni, Guðrúnu Kristjánsdóttur, Hörpu Árnadóttur og Ólöfu Nordal. 

Tillögum átti að skila inn 21. febrúar 2014. 

Í dómnefnd voru tveir fulltrúar frá verkkaupa, Ásta K. Sigurjónsdóttir, Hulda Þ. Aðalsteinsdóttir, annar af arkitektum hússins, og Bjarki Bragason frá listskreytingasjóði. Allar tillögurnar voru mjög vel unnar og af miklu listfengi. Dómnefnd var sammála um að velja tillögu merkta 28-26 til nánari útfærslu. Höfundar hennar reyndist vera Guðrún Kristjánsdóttir. Nánari upplýsingar um Guðrúnu og verk hennar má finna á heimasíðu hennar www.gudrun.is

Verkleg framkvæmd

Auglýst var eftir tilboðum í framkvæmdina 1. október 2011. Var þá búið að skipta um jarðveg í hússtæðinu, en byggingin er grunduð á malarpúða. 

Tilboð voru opnuð 18. október 2011. Tilboð Viðhaldsmeistarans var lægst, 528.736.166 krónur eða 95% af kostnaðaráætlun. 

Þann 18. ágúst 2011 var tekin fyrsta skóflustungan að nýju hjúkrunarheimili á Eskifirði í Fjarðabyggð. 

18. ágúst er einnig afmælisdagur Eskifjarðarkaupstaðar sem sameinaðist Fjarðabyggð árið 1998 og þennan sama daga fyrir 22 árum var hjúkrunarheimilið Hulduhlíð tekið í notkun. 

Framkvæmdum er lokið og hefur húsið verið tekið í notkun.