Verkefni

Fangelsi á Hólmsheiði

 • Verkkaupi: Innanríkisráðuneytið
 • Staða: Framkvæmd lokið
 • Verkefnisnúmer: 606 0810
 • Verkefnastjóri: Örn Baldursson
 • Stærð mannvirkis: 3.595 fermetrar / 14.516 rúmmetrar. Lóð 37.400 fermetrar
 • Tímaáætlun: Frá júní 2013 til júní 2016
 • Áætlaður kostnaður: 2.693 milljónir króna
 • Fangelsið á Hólmsheiði
 • Fangelsið á Hólmsheiði
 • Fangelsið á Hólmsheiði
 • Fangeslið á Hólmsheiði
 • Framkvæmdir við Fangelsið á Hólmsheiði
 • Framkvæmdir við Fangelsið á Hólmsheiði
 • Framkvæmdir
 • Framkvæmdir við Fangelsið á Hólmsheiði
 • Skóflustunga
 • Fangelsi a Holmsheidi
 • Undirritun hönnunarsamnings
 • Fangaklefi
 • Sameiginlegt rými

Um verkefnið

Nýtt fangelsi á Hólmsheiði mun marka tímamót í sögu fangelsismála á Íslandi. Hegningarhúsið við Skólavörðustíg er síðasta sérsmíðaða fangelsið á Íslandi. Það var reist árið 1875. Fangelsið á Litla-Hrauni var upphaflega byggt sem Sjúkrahús Suðurlands, en Landsstjórnin keypti bygginguna 1929 og breytti því í fangelsi. 

Fangelsi á Hólmsheiði er gæsluvarðhalds- og móttökufangelsi með deild fyrir kvenfanga og aðstöðu fyrir afplánun skemmri fangelsisrefsinga og vararefsinga. 56 fangaklefar eru í fangelsinu en aðrar einingar fangelsisins eru aðkoma, varðstofur, heimsóknaraðstaða, vinnu- og frístundaaðstaða og stjórnunar- og starfsmannaaðstaða.

Fangelsið á Hólmsheiði mun leysa af hólmi Hegningarhúsið við Skólavörðustíg 9 í Reykjavík, sem starfrækt hefur verið í 140 ár, og Fangelsið Kópavogsbraut 17, en hvorugt fangelsið uppfyllir nútímakröfur um fangavist. Einnig verður gæsluvarðhaldsdeild í Fangelsinu á Litla-Hrauni lögð niður og aðstaða hennar tekin fyrir afplánun.

Byggingin fékk umhverfisvottun að lokinni fullnaðarhönnun (e. post design) samkvæmt breska vottunarkerfinu BREEAM í flokknum „Very good“ í nóvember 2017.

Orðatiltækið „að fara á níuna“ spratt upphaflega út frá því að Hegningarhúsið við Skólavörðustíg er númer 9. Heyrst hefur að Magnús Sædal, byggingarfulltrú Reykjavíkur, hafi lagt sig sérstaklega fram við deiliskipulag á Hólmsheiði og er lóðin sem nýja fangelsið rís á einmitt númer 9. 

Frumathugun

Framkvæmdasýslan vann frumathugun vegna nýs fangelsis á Hólmsheiði fyrir fjármálaráðuneytið, dagsett 29. nóvember 2011. Frumathugunin gerir grein fyrir fjölda fangarýma í fangelsum árið 2011 og brýnni þörf fyrir fjölgun þeirra. Gerður er samanburður á nokkrum valkostum og lagt til að byggja nýtt fangelsi á Hólmsheiði í Reykjavík með 56 fangarýmum. Áætluð brúttó stærð verði 3.660 m2. Í ársbyrjun 2012 hófst opin hugmyndasamkeppni um byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði í Reykjavík. FSR hafði umsjón með samkeppninni fyrir hönd verkkaupa.

Samkeppnislýsingin: Gæsluvarðhalds- og móttökufangelsi með deild fyrir kvenfanga, aðstöðu fyrir afplánun skemmri fangelsisrefsinga og vararefsinga á Hólmsheiði í Reykjavík. Fangelsisbyggingin verður með 56 fangarýmum og um 3.700 m2 að stærð. Nýja fangelsið á að leysa af hólmi Hegningarhúsið við Skólavörðustíg, Kvennafangelsið í Kópavogi ásamt því að gert er ráð fyrir að gæsluvarðhaldsdeild á Litla-Hrauni færist á Hólmsheiði. 

Áætlunargerð

Hönnunarsamkeppni

Í byrjun árs 2012 var auglýst eftir hugmyndum í opinni hönnunarsamkeppni um byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði í Reykjavík. FSR var umsjónaraðili samkeppninnar fyrir hönd verkkaupa. 

Niðurstöður voru kynntar 5. júní 2012.

1. verðlaun hlaut tillaga Arkís, höfundar arkitektarnir Björn Guðbrandsson og Arnar Þór Jónsson. 

Niðurstaða dómnefndar er að tillagan sé mjög góð og svari einstaklega vel áherslum dómnefndar í samkeppnislýsingu, einkum sé gæsluvarðhaldsþættinum gerð frábær skil, sem og aðalvarðstofu og miðlægum rýmum. Þá eru aðstæður við aðalinngang og tengsl heimsóknaraðstöðu og viðtalsrýmis fyrir utanaðkomandi ráðgjafa vel leyst. Heildaryfirbragð byggingarinnar er mjög áhugavert og tillagan gefur fyrirheit um einfalda, notadrjúga og látlausa byggingu sem sam­ræm­ist stefnu Fang­els­is­mála­stofn­un­ar um ör­ugga og vel skipu­lagða afplán­un.

 Samkeppni um listskreytingu

Í mars 2013 bauð innanríkisráðuneytið til opinnar samkeppni um listskreytingu fangelsisins, en listskreytingar eru lögbundinn hluti opinberra bygginga. FSR hafði umsjón með samkeppninni fyrir hönd verkkaupa. 

Verkið Arboretum - Trjásafn, eftir Önnu Hallín og Olgu S. Bergmann, hlaut 1. verðlaun. 

Dómnefnd heillaðist mjög að þessari vönduðu tillögu og ekki síst umhyggju fyrir nærumhverfinu. Auk þess telur hún tillöguna heilsteypta, vel ígrundaða og vel útfærða. Teikningar flugmynstra í steypufleti er áhugaverð og vísar til hvort tveggja, þyngdar efnisins og léttleika flugsins.

Arboretum - Trjásafn er margþætt listaverk. Fyrst ber að nefna trjásafn, sem er þyrping 9 tegunda trjáa er standa í aðkomugarði fangelsisins. Þar er svo gert ráð fyrir „fuglahóteli“ með tilheyrandi fuglahúsum sem unnin eru í samvinnu við tréverkstæðið á Litla Hrauni. Þá er lagt til að vefmyndavélum sé komið fyrir í einhverjum af fuglahúsunum svo hægt sé að fylgjast með atferli fuglanna á skjá í bókasafni fangelsisins. Í sjónsteyptum veggbútum í útivistargörðum fangelsisins er svo gert ráð fyrir fræstum teikningum af fuglamynstri fugla sem sækja þessar lendur. 

Í dómnefnd sátu Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sérfræðingur í innanríkisráðuneyti og formaður dómnefndar, Guðrún Edda Guðmundsdóttir, lögfræðingur hjá Fangelsismálastofnun, Björn Guðbrandsson, arkitekt og höfundur vinningstillögu, Þóra Sigurðardóttir myndlistarmaður og Jón Bergmann Kjartansson Ransu myndlistarmaður. Sérstakir ráðgjafar dómnefndar voru Halldór V. Pálsson, sérfræðingur hjá Fangelsismálastofnun, Arnór Þ. Sigfússon, dýravistfræðingur PhD. hjá Verkís hf., og Örn Baldursson, arkitekt og verkefnastjóri FSR. 

Mannvit hf. annast burðarþol, lagna- og hljóðhönnun, Verkís hf. annast rafmagns- lýsingar- og öryggishönnun og Lota (áður VSÍ) brunahönnun. 

Verkleg framkvæmd 

Framkvæmdum við fangelsið var skipt upp í tvö útboð, jarðvinnu og heimlagnir og hús og lóð. Útboð jarðvinnu og heimlagna var auglýst 9. mars 2013 og tilboð opnuð 26. mars 2013. 

Tilboði Ístaks hf. upp á 96.291.241 krónur var tekið 30. apríl 2013. Kostnaðaráætlun var 100.684.160 krónur og tilboð Ístaks því 95,65% af kostnaðaráætlun.

Fyrsta skóflustungan að nýju fangelsi á Hólmsheiði var tekin 4. apríl 2013 af Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra. Fjöldi gesta var viðstaddur þennan merka áfanga í fangelsissögu landsins, þar á meðal Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, og Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður stýrihóps um byggingu nýs fangelsis. 

Framkvæmdum við jarðvinnu og heimlagnir lóðar lauk í nóvember 2013. 

Útboð húss og lóðar var auglýst 17. ágúst 2013. Tilboð voru opnuð hjá Ríkiskaupum 5. desember 2013. Þrenn tilboð bárust í verkið, en Íslenskir Aðalverktakar hf. voru lægstir með tilboð upp á 1.819.963.591 krónur eða 94,9% af kostnaðaráætlun.