Verkefni

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur

  • Verkkaupi: Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Staða: Framkvæmd lokið
  • Verkefnisnúmer: 602 7000
  • Verkefnastjóri: Guðbjartur Á. Ólafsson
  • Stærð mannvirkis: 3.744 fermetrar
  • Fyrsta skóflustungan tekin
  • SVF
  • Grunnmynd
  • Veröld - hús Vigdísar

Um verkefnið 

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur (SVF) í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands hýsir alþjóðlega miðstöð til kennslu, rannsókna og þekkingarmiðlunar á vettvangi tungumála og menningar. Stofnunin hefur hlotið vottun UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Tengiliður verkkaupa var Eiríkur Hilmarsson. 

Frumathugun

Frumathugun var unnin á vegum Byggingarnefndar Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur sem skipuð var af háskólaráði 7. apríl 2011 vegna fyrirhugaðrar nýbyggingar. FSR vann umsögn um frumathugunina í nóvember 2011. Hlutverk byggingarinnar er að bæta aðstöðu til miðlunar þekkingar á erlendum tungumálum til almennings og barna á öllum aldri í anda þess brautryðjendastarfs sem Vigdís Finnbogadóttir hefur unnið hjá UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna. Í húsinu mun fara fram nýsköpun, rannsóknir, nám og kennsla á öllum námsstigum á þessu sviði. Gert er ráð fyrir að byggingin hýsi 12 kennslustofur, tungumálamiðstöð, heimasvæði tungumála, fyrirlestrasal, bóka- og gagnasafn ásamt upplifunar- og fræðslusetri. Einnig verður að finna Vigdísarstofu, sem verður opin almenningi, vinnurými doktorsnema, auk skrifstofu og stoðrýma.  

Samkeppni

Framkvæmdasýslunni var falin umsjón með undirbúningi og framkvæmd hönnunarsamkeppni um bygginguna fyrir hönd Háskóla Íslands. Í desember 2011 var auglýst opin hönnunarsamkeppni um bygginguna. Sérstakir ráðgjafar dómnefndar voru Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og velgjörðarsendiherra tungumála, og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.

Tillögum var skilað inn í mars 2012, og voru niðurstöður kynntar 16. maí sama ár.

Fyrstu verðlaun hlaut tillaga arkitektur.is. Höfundar tillögu eru Gunnlaugur Magnússon, Haraldur Örn Jónsson, Hjalti Parelius, Hjörtur Hannesson og Kristján Garðarsson. 

Í umsögn dómnefndar segir meðal annars: 

 Helstu kostir tillögunnar eru ágæt tengsl við umhverfið og góð innbyrðis tengsl í byggingunni. Innri rými hverfast um opið miðrými sem tengir allar hæðir hússins og eru góð sjónræn tengsl milli hæða. 

Útirými sunnan við bygginguna eru snjöll og er lækkun lands góð leið til að nýta neðstu hæð hússins og gæða rými þar dagsbirtu. Vel er hugsað fyrir aðkomu þeirra sem eru gangandi og hjólandi og er tillagan ágætis grundvöllur að vistvænni byggingu.

Áætlunargerð

Á grundvelli vinningstillögunnar var samningur við arkitektur.is undirritaður í ágúst 2012. Gísli Þór Magnússon, skrifstofustjóri upplýsinga- og fjármálasviðs, undirritaði fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytis, Helga Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri arkitektur.is, undirritaði fyrir þeirra hönd og Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri Framkvæmda- og tæknisviðs Háskóla Íslands, undirritaði til staðfestingar. 

Samningurinn fól í sér heildarhönnun á byggingu og lóð ásamt bílageymslu í kjallara og tengigangi við Háskólatorg undir Suðurgötu. Stærð hússins var áætluð 3.100 m2  og bílageymsla 1.150 m2

Byggingin mun fara í vottunarferli fyrir umhverfisvæna hönnun, BREEAM, og sér ráðgjafi um að BREEAM vottun fáist með viðeigandi árangri. Ráðgjafar munu einnig hanna bygginguna eftir aðferðafræði BIM

Fjórar ráðgjafastofur unnu að hönnuninni sem hönnunarteymi, það er arkitektur.is ehf., Verkís hf., Trivium ráðgjöf ehf. og Hornsteinar arkitektar ehf.

Verkleg framkvæmd

Í lok árs 2014 var auglýst eftir tilboðum í byggingu fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Brynjólfsgötu 1, Reykjavík. Byggingin er á horni Suðurgötu og Brynjólfsgötu og liggja undirgöng undir frá byggingunni að Háskólatorgi. Samanlagt er byggingin um 3.800 m2 og um 17.200 m3. Meginbyggingin er á fjórum hæðum en auk hennar er niðurfellt torg með setpöllum og skábrautum um 1.000 m2

Verkefnið var unnið samkvæmt aðferðafræði BIM og aðferðafræði vistvænnar hönnunar. Stefnt er að því að byggingin verði vottuð sem vistvænt mannvirki samkvæmt alþjóðlega vottunarkerfinu BREEAM

Tilboð voru opnuð 10. febrúar. Alls bárust fjögur tilboð í verkið, en Eykt ehf. voru lægstir með tilboð upp á krónur 1.367.519.066.- sem er 97,29% af kostnaðaráætlun. Tilboði þeirra var tekið þann 3. mars 2015. 

Fyrsta skóflustungan var tekin í kjölfarið, sunnudaginn 8. mars kl. 15.00.

Verklok voru 7. júní 2017.