Verkefni

Gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs, Kirkjubæjarklaustri

  • Verkkaupi: Stofnanir
  • Staða: Í verklegri framkvæmd
  • Verkefnisnúmer: 614 2122
  • Verkefnastjóri: Pétur Bolli Jóhannesson
  • Gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs, Kirkjubæjarklaustri
  • Gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs, Kirkjubæjarklaustri

Um verkefnið

Verkefnið felst í byggingu gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri. Byggingin verður starfsstöð Vatnajökulsþjóðgarðs á vestursvæði hans með aðstöðu á aðalhæð fyrir upplýsingagjöf, sýningarhald, verslun, kaffihús, skrifstofu- og starfsmannaaðstöðu, geymslu og tæknirými í kjallara. Byggingin verður 620 m2 á einni hæð, auk 145 m2 kjallara eða samtals 765 m2.

Verkkaupar eru umhverfis- og auðlindaráðuneyti en Vatnajökulsþjóðgarður mun sjá um daglegan rekstur gestastofunnar.

Frumathugun

Verkefnastjóri FSR veitir upplýsingar um frumathugun. 

 

Áætlunargerð

 

 

Bygging gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri er í áætlunargerð í nóvember 2017. Byggingin er hönnuð þannig að hún falli vel að og inn í landið og verði hluti af hólóttu landslagi lóðarinnar við Sönghól. Þak byggingarinnar er lagt með úthagatorfi af lóðinni. Hægt verður að ganga upp á þak byggingarinnar og horfa yfir Kirkjubæjarklaustur, Landbrotið, Systrastapa, Skaftá, Síðuna, Núpana og yfir á Öræfajökul og ná þannig sjónrænni tengingu við þjóðgarðinn. 

Helsta aðkoma akandi er frá þjóðvegi 1, einnig er gert ráð fyrir góðri tengingu við þorpið um núverandi göngu- og hjólastíga og til framtíðar um göngubrú yfir Skaftá, ásamt aðlægum náttúru- og útivistarsvæðum. Aðkomustígar og bílastæði verða felld inn í landið og verða þannig lítt áberandi frá byggingunni, nágrannabæjum og þorpinu. Bílastæðin eru hönnuð með aðstöðu fyrir hjól og rafmagnsbíla, auk venjulegra bíla og rútna.

Aðkomutorgið við aðalinnganginn er einn af upplýsingarmiðlunarstöðunum þar sem landmótun er formuð með uppbyggðum pöldrum sem gestir geta tyllt sér á og hlustað meðal annars á fyrirlestra um svæðið og Vatnajökulsþjóðgarð. Aðkomutorgið tengist yfirbyggðri verönd fyrir útiveitingaaðstöðuna með yfirsýn yfir Skaftá, Síðuna, Núpana og Öræfajökul til austurs. Aðkoma að kjallara er um braut sem er samsíða aðkomu gangandi að aðkomutorginu og aðalinngangi hússins. Meginburðarvirki hússins eru steinsteyptar samlokueiningar með báraðri yfirborðsáferð að utanverðu. Staðsteyptir út- og innveggir eru með láréttri mótatimbursáferð að innanverðu. Gluggar og hurðir eru álgluggakerfi með sólstoppgleri. Gólf og gólfplötur eru staðsteyptar, með ásteypulagi og innfelldum gólfhita. Í almenningsrýmum eru gólf með slípaðri steinsteypuáferð. Íblöndunarefni steypunnar er tekið úr öllum jökulám vestursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs. Þak er viðsnúið með megin burðarvirki í forsteyptum rifjaplötum og ásteypulagi, ábræddum þakpappa, XPS einangrun og úthagatorfi frá staðnum sem yfirborðsefni. 

Gönguleið á þaki er lögð með grassteini. Öllu yfirborðsvatni af þakinu er skilað í yfirborðstjarnir. Þakkantar eru klæddir með ómeðhöndluðu plötustáli. Klæðning undir skyggnum og þakköntum er timburlistaklæðning úr íslensku sitkagreni. Allt timbur utanhúss er frá Suðurlandsskógum (Kirkjubæjarklaustri). Handrið og girðing eru stálhandrið klædd með stálneti. Sorpgeymslur eru staðsettar á lóð í lokuðu sorpskýli við aðkomu að kjallara.

Hönnuðir gestastofunnar eru Arkís arkitektar ehf., Verkís hf., LISKA ehf., Verkfræðistofa Þráins og Benedikts ehf. og Hnit verkfræðistofa hf. 

Byggingin er hönnuð á grundvelli algildrar hönnunar. Byggingin verður hituð upp með orku frá vatni í vatn varmadælu. Byggingin er hönnuð og byggð í samræmi við alþjóðlega umhverfisvottunarkerfið BREEAM