Verkefni

Snjóflóðavarnir á Ísafirði, Gleiðarhjalli - Varnargarðar

  • Verkkaupi: Stofnanir
  • Staða: Í verklegri framkvæmd
  • Verkefnisnúmer: 633 1717
  • Verkefnastjóri: Hafsteinn S. Steinarsson
  • Tímaáætlun: Áætluð verklok haustið 2018
  • Áætlaður kostnaður: 591.430.982 kr.
  • Gleidarhjalli-varnargardar

Um verkefnið

Ofanflóðavarnir undir Gleiðarhjalla á Ísafirði er mannvirki gegn snjóflóðum, aurflóðum og grjóthruni. Áður voru hafnar undirbúningsframkvæmdir við færslu lagna.

Verkkaupi er Ísafjarðarbær og ofanflóðasjóður. Umsjón hefur Framkvæmdasýsla ríkisins, verkefnastjóri er Hafsteinn S. Steinarsson. Frumathugun vann Verkís hf., deiliskipulag vann Teiknistofan Eik ehf. og mat á umhverfisáhrifum vann Náttúrustofa Vestfjarða. Mannvit ehf. vann verkhönnun.

Frumathugun

Frumathugun var unnin af Verkís hf., skýrsluna unnu Kristín Martha Hákonardóttir, Hallgrímur D. Indriðason og Snorri Gíslason hjá Verkís hf. í samstarfi við Teiknistofuna Eik ehf. Deiliskipulag byggir á skýrslu sem unnin var af Teiknistofunni Eik ehf., tillaga að mótvægisaðgerðum, tengiliður Erla Bryndís Kristjánsdóttir landslagsarkitekt. Deiliskipulag fyrir innri hluta ofanflóðavarnanna var samþykkt 16. febrúar 2012.

Í frumathugun kemur meðal annars fram að hætta á ofanflóðum neðan Gleiðarhjalla sé töluverð og þótt snjóflóð séu þar sjaldgæf er töluverð hætta á öðrum ofanflóðum, einkum vegna aurflóða og grjóthruns. Hættumatskort, unnið af Veðurstofu Íslands, var lagt fram í september 2008. Sýna hættumatslínur samanlagða hættu vegna snjóflóða, aurflóða og grjóthruns. Stærstu upptakasvæðin í Gleiðarhjalla eru ofan Stakkaneshryggjar, Stórurðar og á svæði þar vestan við. Til varnar ofanflóðum er í frumathuguninni lagt til að byggðir verði allt að 5 metra háir varnargarðar undir endilangri hlíðinni, einnig allt að 14 metra háir varnargarðar neðan við stærstu upptakasvæðin. Kostnaður garðanna er í frumathugun metinn um 685 m.kr.

Mat á umhverfisáhrifum annaðist Náttúrustofa Vestfjarða, skýrsluna unnu Þorleifur Eiríksson og Böðvar Þórisson hjá Náttúrustofu Vestfjarða. Drög að mati á umhverfisáætlun ásamt tillögu að matsáætlun voru lögð fram í júlí 2011.

Í mati á umhverfisáhrifum segir meðal annars að varnargarðarnir verði vel sýnilegir og til að lágmarka neikvæð áhrif á ásýnd svæðisins hefur tillaga að mótvægisaðgerðum verið sett fram af landslagsarkitektum.

Verkís hf. vann hönnun á stigi frumathugunar árið 2008. Teiknistofan Eik ehf. kom að landslagshönnun, með tillögum að aðlögun varnargarðanna að umhverfinu og mótun og uppgræðslu lands.

Áætlunargerð

Gerður var samningur milli Ísafjarðarbæjar sem verkkaupa og FSR í júní 2011, staðfestur af ofanflóðasjóði, um að FSR annist umsjón með undirbúningi og framkvæmd ofanflóðavarna undir Gleiðarhjalla á Ísafirði. Verkefnastjóri hjá FSR var Guðmundur Pálsson, síðar Hafsteinn S. Steinarsson, sem er jafnframt tengiliður FSR við verkkaupa og við ofanflóðasjóð vegna ofanflóðaverka almennt. Fyrir Ísafjarðarbæ undirritaði verkkaupasamninginn Daníel Jakobsson bæjarstjóri en umboðsmaður fyrir Ísafjarðarbæ er Jóhann Birkir Helgason. Fulltrúi ofanflóðasjóðs og tengiliður er Hafsteinn Pálsson hjá umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Til verkhönnunar var valið með forvali. Í forvalsgögnum kemur meðal annars fram að verkið felist í því að fullhanna ofanflóðavarnargarða ofan byggðar á Ísafirði neðan Gleiðarhjalla á grundvelli frumathugunar sem unnin var af Verkís hf. Við hönnun varnargarða skal hafa samráð við Teiknistofuna Eik ehf. sem annast útlitshönnun garðanna og landmótun umhverfis þá. Um er að ræða verkfræðilega hönnun, 270 metra langa og 2 til 5 metra háa þvergarða til varnar aur- og krapaflóðum og grjóthruni og 450 metra langa og 10 til 14 metra háa, bratta þvergarða til varnar snjóflóðum og 150 metra langs og 6 til 7 metra bratts þvergarðs neðan við. Bratta halla varnargarða skal byggja upp með jarðvegsstyrkingakerfi, svo sem netgrindum. Verkið nær einnig til verkhönnunar lagnaleiða, vega, stíga, slóða og ræsa. Verkhönnun nær til útboðs- og verklýsinga, gerð allra nauðsynlegra vinnuteikninga og kostnaðaráætlunar. Verkhönnunin skal unnin í samræmi við skiptingu í útboðsáfanga framkvæmda.

Tilboð í verkhönnun snjóflóðavarna á Ísafirði, Gleiðarhjalla, voru opnuð þann 24. janúar 2012. Tvö gild tilboð bárust og voru tilboð eftir yfirferð eftirfarandi: Mannvit hf., 6.995.000 kr., og EFLA hf., 11.500.000 kr. Tekið var tilboði Mannvits hf. Tengiliður við stofuna er Hallgrímur Hallgrímsson.

Undirbúningi framkvæmda við ofanflóðavarnir undir Gleiðarhjalla á Ísafirði er lokið.

Verkleg framkvæmd

Verkið felst í að reisa aur- og snjóflóðavarnargarða ofan byggðar á Ísafirði, neðan Gleiðarhjalla. Um er að ræða þrjá snjóflóðavarnargarða og einn aurflóðavarnargarð. Í verkinu felst einnig mótun yfirborðs skeringa flóðmegin við garða og jöfnun yfirborðs garða hlémegin. Einnig felst í verkinu gerð bráðabirgðavega, vegslóða, gangstíga og áningarstaða. Jafnframt röðun með stökum steinum eða grjótfláa, lagning ræsa í gegnum vegslóða, drenskurðir, jöfnun yfirborðs og frágangur.

Tilboð voru opnuð hjá Ríkiskaupum 20. júní 2013. Alls bárust tvö tilboð, en tilboði ÍAV hf. var tekið þann 29. júlí 2013. 
Áætluð verklok eru haustið 2018.