Verkefni

Lækur í Flóa - íbúðarhús

  • Verkkaupi: Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Staða: Verkefni lokið
  • Verkefnisnúmer: 609 1600
  • Verkefnastjóri: Guðbjartur Á. Ólafsson
  • Stærð mannvirkis: 170 fermetrar
  • Tímaáætlun: Áætluð verklok 1. apríl 2016

Um verkefnið

Verkefnið fólst í hönnun og byggingu íbúðarhúss á ríkisjörðinni Læk í Flóahreppi fyrir Jarðeignir ríkisins og fjármála- og efnahagsráðuneytið. Framkvæmdasýsla ríkisins hafði umsjón með verkefninu fyrir hönd verkkaupa á stigi frumathugunar, áætlunargerðar, verklegrar framkvæmdar og skilamats. Verkefnastjóri var Guðbjartur Á. Ólafsson á stigi frumathugunar, áætlunargerðar og skilamats en Jón R. Sigmundsson í verklegri framkvæmd.  

Frumathugun

Íbúðarhúsið á Læk í Flóa skemmdist það mikið í jarðskjálftum 2000 og 2008 að um altjón var að ræða. Verkefnið var að finna nýju húsi stað, rífa það gamla og farga og byggja nýtt íbúðarhús sem næst sama bæjarhólnum. Jarðeignir ríkisins höfðu boðið ábúðina út og samið við hjón með fimm börn um að sitja jörðina. Stærð á nýju húsi varð að taka mið af því og skyldi vera að hámarki 170 m². Grunneiningar þess eru almenn rými og fjögur svefnherbergi. Vegna fjölskyldustærðar mátti hafa 40 m² bílskúr við húsið sem yrði þó á forræði ábúenda og myndi greiðast af þeim.

Áætlunargerð

Ákveðið var að viðhafa alútboð á verkinu, það er að bjóðandi sjái um hönnun og byggingu hússins samkvæmt húsrýmisáætlun. Í útboðsgögnum segir að hönnun, teikningar, byggingarleyfi, útsetningar, umsjón og eftirlit bjóðanda verði innifalið í tilboðsverði hússins. Húsið skyldi vera einnar hæðar timburhús með risþaki á steyptum grunni. Heimilt var að gera tilboð hvort heldur sem er í einingahús eða hús byggt á staðnum. Stærðhússins (brúttó) skyldi vera, samkvæmt frumathugun, að hámarki 170 m² og grunneiningar þess almenn rými og fjögur svefnherbergi. Við húsið verði teiknaður 40 m² bílskúr sem verður á forræði ábúenda og greiðist af þeim.

Við undirbúning og skilgreiningu verkefnis, meðal annars við gerð húsrýmisáætlunar, var samið við Sigurð Jakobsson, tæknifræðing hjá Bölta ehf., sem setti út byggingarreit og hafði umsjón með aðstæðum í grunni þegar skipt var um jarðveg í samráði við FSR og verkkaupa. Páll Íslam var kallaður til ráðgjafar vegna aðstæðna í grunni með tilliti til jarðskjálfta. Með tilboðinu í alverkið var Bent Larsen Fróðason aðalhönnuður, Björgvin Víglundsson, burðarþols- og lagnahönnuður, og Sigurður Ágúst Pétursson, hönnuður raflagna.

Verkleg framkvæmd

Fjármála- og efnahagsráðuneytið heimilaði að hefja verklegan hluta framkvæmdarinnar þann 23. febrúar 2015. Þann 15. september 2015 var tilboði frá Suðurtak ehf. tekið í jarðvegsskipti, húsrif og förgun að upphæð 4.046.500 kr. en þessir verkþættir voru utan útboðsverksins, það er alverksins.

Tilboð voru opnuð þann 18. mars 2015. Niðurstöður útboðsins eftir yfirferð tilboða voru eftirfarandi: Kostnaðaráætlun sem áður var 33.700.000 kr. var uppfærð fyrir opnun í 41.700.000 kr. Kostnaðaráætlun sem birtist við opnun var ekki rétt, heldur var þar um að ræða uppfærða heildaráætlun alls verksins. Þann 4. maí 2015 var tilboði Eðalbyggingar ehf. að fjárhæð 43.240.000 kr. með virðisaukaskatti tekið, sem var 82,3% af kostnaðaráætlun við opnun en 4,6% yfir áætluðum kostnaði. Gerður var skriflegur samningur um verkið í framhaldi af því að fjárhæð 43.240.000 kr.

Þann 16. ágúst 2016 var haldinn lokaverkfundur og var þá verkinu lokið í einu og öllu. Við lokaúttekt kom í ljós að einn reykskynjara vantaði og slökkvitæki í bílageymslu en úr því var bætt meðan á fundinum stóð.

Skilamat

Skilamat um hönnun og byggingu íbúðarhúss á ríkisjörðinni Læk í Flóahreppi var unnið samkvæmt lögum um skipan opinberra framkvæmda. Framkvæmdirnar voru unnar á tímabilinu maí 2015 til ágúst 2016. Skilamatið og öll útgefin skilamöt/skilagreinar/skilablöð má finna á vef FSR undir Útgefið efni.