Verkefni

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, húsnæðismál

  • Verkkaupi: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Staða: Framkvæmd lokið
  • Verkefnisnúmer: 633 4106
  • Verkefnastjóri: Róbert Jónsson
  • LSR eftir breytingar. Ljósmynd: Örn Erlendsson.

Um verkefnið

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) er í nýinnréttuðu húsnæði og nýlega voru settar þar myndir á glerveggi sem er til prýði. LSR keypti húsið að Engjateigi 11 og þurfti að endurinnrétta. Framkvæmdasýsla ríkisins hafði ráðgjöf um húsnæðismálið og umsjón með verklegri framkvæmd. Aðalhönnuður innréttinganna var Go-Form ehf. 

Verkefnastjóri var Róbert Jónsson og eftirlit hafði Ívar Már Markússon. Verktaki var Þarfaþing hf.

Frumathugun

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) leitaði til FSR vegna húsnæðismála, því húsnæði LSR í Bankastræti 7 var fulllítið og þarfnaðist endurbóta. Þann 9. ágúst 2011 óskaði LSR eftir að kannaðir yrðu nánar eftirfarandi valkostir sem starfsmenn LSR höfðu skoðað lauslega: Endurbætur á Bankastræti 7, kaup á Engjateigi 11 eða leiga á húsnæði við Höfðatorg í Reykjavík (Turninn) eða Álfheima 74 (Glæsibæ).

LSR óskaði eftir því að FSR ynni hagkvæmniathugun á fyrirliggjandi valkostum um framtíðarhúsnæði LSR. Í hagkvæmniathuguninni, sem lögð var fram í október 2011, var lagt mat á sjö mismunandi valkosti þar sem miðað var við núvirtan húsnæðiskostnað fram í tímann. Niðurstaða var að valinn var valkosturinn Engjateigur 11, kaup og endurbætur, sem var hagkvæmasti valkosturinn. Engjateigur er alls 1.681 fermetrar að stærð, og því nokkuð stærri en rýmisáætlun, en varð fyrir valinu meðal annars vegna lægra fermetraverðs, gæða byggingar og þróunarmöguleika.

Áætlunargerð

LSR gerði samning við FSR vegna undirbúnings og framkvæmda við nýtt húsnæði LSR við Engjateig 11. FSR hafði umsjón og eftirlit með verkinu. Verkþættir voru samkvæmt samningi gerð tíma- og kostnaðaráætlana, samningagerð við hönnuði, umsjón með hönnun, gerð útboðsgagna og framkvæmd útboðs, samningagerð við verktaka, eftirlit með verkframkvæmdum og gerð skilagreinar við lok verkefnis. Samningurinn var unninn í janúar og hann undirritaður 20. mars 2012, Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri f.h. LSR, og Óskar Valdimarsson, f.h. FSR. Umboðsmaður verkkaupa var Páll Ólafsson hjá LSR en verkefnastjóri FSR var Róbert Jónsson.

Ráðgjafar voru eftirfarandi: Aðalhönnuður innanhússbreytinga var Go-Form ehf., tengiliðir við teiknistofuna voru Guðrún Margrét Ólafsdóttir og Oddgeir Þórðarson. Samræmingarhönnuður og arkitekt hússins var Gunnar Óskarsson, Teiknistofu GSO ehf., hönnuður burðarþols og lagna var Verkfræðistofa Þráins og Benedikts, loftræsihönnun vann Verkfræðistofan Ferill og hönnun raflagna annaðist Lumex.

Engjateigur 11 er steinsteypt hús, kjallari og þrjár hæðir. Þriðja hæðin er þakhæð, inndregin við suð- og norðlæga hlið. Í húsinu er lyfta. Arkitekt hússins er Gunnar S. Óskarsson. Húsið var endurskipulagt fyrir LSR og verður í kjallara eldhús og matsalur, aðstaða starfsfólks og tæknirými, á 1. hæð er afgreiðsla, þjónusta og skrifstofur og á 2. og 3. hæð skrifstofur og fundarherbergi.

Hönnun endurbóta Engjateigs 11 miðaðist við lítils háttar endurbætur utanhúss (stálstigi) en breytingar og gagngera endurnýjun innanhúss á öllum hæðum. Innveggir, innihurðir og fastar innréttingar verða víða endurnýjaðar og lagt nýtt parket. Breyta þarf hluta af lögnum og raflögnum.

Verkleg framkvæmd

Framkvæmdasýsla ríkisins, fyrir hönd Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, óskaði eftir tilboðum í verkið Engjateigur 11, endurbætur. Um var að ræða örútboð innan rammasamnings Ríkiskaupa, verknúmer 633 4106. Opnun tilboða hjá FSR var 17. apríl 2012 klukkan 15.00. Lok framkvæmdatíma var 2. júlí, 13. ágúst og 3. september 2012. 

Eftirtöldum aðilum var gefinn kostur á að taka þátt í útboðinu: Aðalvík ehf., Sveinbjörn Sigurðsson hf., Þarfaþing hf., Sérverk ehf., Atafl ehf.

Verkið fólst í því að endurbæta húsnæðið við Engjateig 11 í Reykjavík, u.þ.b. 1.670 fermetra, þar sem Kiwanishreyfingin og Vinnumálastofnun Reykjavíkurborgar voru áður til húsa. Húsnæðið er í eigu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Verkið var áfangaskipt og miðað við að 2. júlí 2012 yrðu geymslur í kjallara og 1. hæðin tilbúin til innflutnings, 13. ágúst yrði 3. hæð tilbúin til innflutnings og 3. september 2012 yrði húsnæðið tilbúið og verki lokið.

Kostnaðaráætlun FSR vegna útboðsverksins nam 180.801.615 kr. Tilboð voru yfirfarin og var tilboði Þarfaþings hf. 148.179.505 kr. tekið sem var 81,95% af kostnaðaráætlun. 

Þarfaþing hf. hóf framkvæmdir í apríl-maí 2012 og lauk framkvæmdum í september (verklokaúttekt FSR) sama ár. Unnið var síðar að því að ljúka smærri verkþáttum.

Skilagrein

Skilagrein um endurbætur á Engjateigi 11 fyrir LSR, Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, var unnin samkvæmt lögum um skipan opinberra framkvæmda. Framkvæmdir við endurbæturnar voru unnar frá apríl til september árið 2012. Skilagreinina og öll útgefin skilamöt/skilagreinar/skilablöð má finna á vef FSR undir Útgefið efni.