Verkefni

Ofanflóðavarnir Eskifirði - Bleiksá

  • Verkkaupi: Stofnanir
  • Staða: Verkefni lokið
  • Verkefnisnúmer: 633 1733
  • Verkefnastjóri: Jón R. Sigmundsson
  • Ofanflóðavarnir Eskifirði - Bleiksá

Um verkefnið

Verkefnið ofanflóðavarnir á Eskifirði, Bleiksá, er lokið. Tilgangur varnanna er aðallega að verja mannvirki við Bleiksá, kirkjuna og hjúkrunarheimilið. Verkkaupar voru Fjarðabyggð og ofanflóðasjóður.

Frumathugun

Gert var ráð fyrir að farvegur yrði dýpkaður niður í hluta núverandi farvegar, frá stöð 108 að stöð 215, nokkru ofan við kirkju og niður undir brú á Strandgötu. Um var að ræða dýpkun, breikkun og stýringu að brúnni í þeim tilgangi að fullnýta rennslisþversnið undir brúna og draga úr hættu á að flóð kastist yfir veg og á nýtt hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Rás þessi er dýpst um ca 4,0 metra í stöð 180.

Ennfremur var gert ráð fyrir 3 metra háum fleyglöguðum leiðigarði milli kirkju og farvegar sem liggur upp með ánni, stöð 150 að stöð 70, upp í urð/mólendi ofan hennar og niður eftir, móts við miðja kirkju að vestanverðu (milli kirkju og kirkjugarðs), frá stöð 70 að stöð O. Með þessu móti næst meðal annars að halda opnum farvegi vestan kirkjunnar og draga þar með úr álagi á meginfarveginn. Straummegin var gert ráð fyrir að efsti hluti þessa garðsyrði brattur (4:1) og allt að því lóðréttur, úr grjóthleðslum samlímdum með steinsteypu.

Áætlunargerð

Með bréfi dagsettu 15. maí 2014 óskaði fjármála- og efnahagsráðuneytið eftir umsögn um áætlunargerð fyrir ofanflóðavarnir í Bleiksá á Eskifirði. Hönnun krapaflóðsvarna var unnin á grundvelli frumathugana og unnar af Hönnun hf. og Landslagi ehf. Verkfræðistofa Siglufjarðar kom að málinu árið 2011 vegna deiliskipulagsvinnu vegna hjúkrunarheimilisins að Dalbraut 1, en þar var gert ráð fyrir ákveðnum vörnum vegna heimilisins. Að beiðni Hafsteins Pálssonar hjá ofanflóðasjóði fór Einar Júlíusson, starfsmaður Mannvits, yfir frumdrög að ofanflóðavörnum við Bleiksá á Eskifirði og lagði mat á varnaraðgerðir vegna hjúkrunarheimilisins við Dalbraut 1. Útboðsgögn fyrir hönnun varnarmannvirkjanna voru unnin af Mannviti. Samið var við Verkfræðistofu Austurlands sem síðar sameinaðist EFLU hf. um hönnun verksins.

Frumathugun mótvægisaðgerða var unnin af Landmótun og mótvægisaðgerðir síðan einnig fullmótaðar af þeim. Meginmarkmið með mótvægisaðgerðum eru: 

  • Að draga sem mest úr óheppilegum umhverfisáhrifum mannvirkisins og nýta kosti þeirra til umhverfisbóta og útivistar. 
  • Að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af fyrirhuguðum varnargarði. 
  • Að skapa aðlaðandi útivistarsvæði. 
  • Að auka útivistarmöguleika á svæðinu. 

Aðgerðirnar taka mið af nálægð varnarmannvirkja við kirkjuna. Samið var við Verkfræðistofu Austurlands (síðar EFLU hf.) á grundvelli verðkönnunar fyrir sameiginlega hönnun bæði Bleiksár og Hlíðarendaár. Samið var við Landmótun, Verkís hf. og Mannvit á grundvelli áætlaðs tímafjölda.

Verkleg framkvæmd

Tilboð í verkið voru opnuð 1. júlí 2014 og hljóðaði kostnaðaráætlun upp á 54.668.500 krónur.
Þrjú tilboð bárust . Þann 16. júlí 2014 var tilboði Héraðsverks ehf. að fjárhæð 46.020.870 krónur með vsk tekið sem var 84,0% af kostnaðaráætlun.

Verkið hófst í lok ágúst 2014 með undirbúningi, öflunmælingargagna og aðstöðusköpun. Byrjað var á aðfjarlægja allt gróðurlag af vinnusvæðinu og haugsetja það tilsíðari nota. Styrkingargrindur og fleira var flutt á staðinn oglagerað bak við kirkjuna. Þegar verktakinn hætti vinnu 15.desember 2014 var búið að dýpka rúmlega 80% af farvegiBleiksár með klapparskeringum (sprengingum). Vinna viðstyrkingarkerfi leiðigarðsins var hafin.Ekkert var unnið í verkinu yfir háveturinn en vinna við verkiðhófst aftur 9. mars 2015 og lauk því 15. ágúst 2015. Verkiðvar tekið út athugasemdalaust. 

Verklokaúttekt fór fram 15. ágúst 2015. 

Skilamat

Skilamat um ofanflóðavarnir á Eskifirði, Bleiksá, var unnið samkvæmt lögum um skipan opinberra framkvæmda. Framkvæmdirnar voru unnar á tímabilinu ágúst 2014 til ágúst 2015. Skilamatið og öll útgefin skilamöt/skilagreinar/skilablöð má finna á vef FSR undir Útgefið efni.