Verkefni

Snjóflóðavarnir Siglufirði, stoðvirki 2. áfangi

  • Verkkaupi: Stofnanir
  • Staða: Verkefni lokið
  • Verkefnisnúmer: 633 1723
  • Verkefnastjóri: Sigurður Hlöðversson
  • Tímaáætlun: Júní 2013 til ágúst 2015
  • Siglufjörður
  • Stoðvirki Hafnarhyrnu
  • Stoðvirki Hafnarhyrnu
  • Stoðvirki Hafnarhyrnu
  • Stoðvirki Hafnarhyrnu

Um verkefnið

Verkefnið Snjóflóðavarnir Siglufirði, 2. áfangi stoðvirkja í Hafnarfjalli, er lokið. Verkefnið náði til stoðvirkja nyrst á svæðinu í Norður-Fífladölum þar sem þörf fyrir snjóflóðavarnir með stoðvirkjum er nú brýnust. Verkkaupi var Fjallabyggð.

Frumathugun

Undirbúningsvinna og framkvæmdir vegna snjóflóðavarna á Siglufirði byggist á lögum um varnir gegn snjóflóðum og reglugerð um hættumat. Á Siglufirði er snjóflóðahættan víðtæk og framkvæmdirnar eru byggðar upp með varnargörðum og stoðvirkum á hættusvæðum ofan við byggðina, hvort tveggja í nokkrum áföngum. Reistir voru leiðigarðar við Strengsgil á árunum 1998 til 2000 og stefnt er að áframhaldandi gerð varnargarða. Á þeim svæðum þar sem landhalli er mikill og rými fyrir varnargarða takmarkaður eru reist stoðvirki.
 
Frumathugun vegna stoðvirkjanna var gerð árið 2001. Hún var unnin af Stefan Margreth hjá rannsóknarstofnun snjóflóða í Sviss, The Swiss Federal Institute for Snow and Avalanche Research, í samráði við Veðurstofu Íslands. 

Niðurstaða frumathugunarinnar var tillaga að miklum upptakastoðvirkjum sem gert var ráð fyrir að reisa í heild í áföngum á árunum 2001 til 2010. Línuhönnun hf. vann mat á umhverfisáhrifum vegna stoðvirkjanna og hættumat var staðfest 23. mars 2002. Fyrsti áfangi stoðvirkjanna, það er við Gróuskarðshnúk, var framkvæmdur á árunum 2003 til 2004. Samkvæmt frumathugun er þörf fyrir snjóflóðavarnir á svæðum í Fífladölum og einnig er nokkur áhætta á fleiri svæðum neðan Fífladala, á svæðum við Hafnarhyrnu/ Gimbrakletta. Í Hvanneyrarskál er áhættan talin minni en á fyrrnefndum svæðum. 

Áætlunargerð

Hönnun bráðabirgðavegs var unnin fyrir útboð sumarið 2012. Bráðabirgðavegurinn liggur um bratta skriðu og er einungis ætlaður fyrir umferð beltatækja og stuttra fjórhjóladrifinna bíla eða tækja og verður notaður meðan unnið er að uppsetningu á stoðvirkum. Lengdarhalli, beygjuradíusar og bratti á fyllingum og skeringum fylgir ekki almennum kröfum sem gerðar eru til varanlegra vega. Gert er ráð fyrir að í lok uppsetningar á stoðvirkjum verði leitast við að afmá veginn og gróðursár verði grædd. Hönnun vegarins er unnin af Verkfræðistofu Norðurlands ehf.

Útboðsgögn vegna efnisútboðs voru gerð og var útboðið auglýst í desember 2012. Nær það til framleiðsluhönnunar, framleiðslu og afhendingar stoðgrinda. Unnin voru síðan útboðsgögn vegna uppsetningar stoðvirkjanna.

Verkleg framkvæmd

Framkvæmdir við bráðabirgðaveg vegna 2. áfanga stoðvirkja snjóflóðavarna á Siglufirði voru boðnar út og voru tilboð opnuð 8. ágúst 2012. Um er að ræða bráðabirgðaveg upp að fyrirhuguðum snjóflóðavörnum í Hafnarfjalli á Siglufirði. Lengd vegarins er um 1.850 metrar. Tilboð í veginn voru opnuð 8. ágúst 2012. Kostnaðaráætlun var 27.931.000 krónur. Tilboði Norðurtaks ehf. var tekið 4. september 2012 og var 13.715.000 krónur, það er 49,10% af kostnaðaráætlun.
 
Útboð á efni og framleiðslu var auglýst í desember 2012. Útboð á uppsetningu stoðvirkjanna var auglýst 9. mars 2013. Verkið felur í sér að setja upp stoðvirki úr stáli (e. snow bridges), einnig kallaðar stálgrindur eða grindur, á upptakasvæðum snjóflóða til snjóflóðavarna í Norður-Fífladölum og Hafnarhyrnu/ Gimbrarklettum ofan byggðar á Siglufirði. Alls um 15.985 metrar. Uppsetning stoðvirkjanna skal vera í samræmi við reglur svissnesku snjóflóðarannsóknastofnunarinnar (WSL) ásamt séríslenskum viðbótarreglum við þær. Verkið var unnið á þremur sumrum, það er 2013 til 2015.  

Skilamat

Skilamat um snjóflóðavarnir í Siglufirði, uppsetning stoðvirkja í Hafnarfjalli, 2. áfangi, var unnið samkvæmt lögum um skipan opinberra framkvæmda. Framkvæmdirnar voru unnar á tímabilinu júní 2013 til ágúst 2015. Skilamatið og öll útgefin skilamöt/skilagreinar/skilablöð má finna á vef FSR undir Útgefið efni