1. nóvember

Vinnueftirlitið flutt í nútímalegt og opið skrifstofuhúsnæði

 • Vinnueftirlitið, vinnurými á 7. hæð
  Vinnurými á 7. hæð. Ljósmynd: Karl Petersson.
 • Fundarherbergi-vid-starfsmannaadstodu-a-7.-haed
  Fundarherbergi við starfsmannaaðstöðu á 7. hæð. Ljósmynd: Karl Petersson.
 • I-stigahusi-vid-inngang-a-7.-haed
  Afdrep í stigahúsi á 7. hæð. Ljósmynd: Karl Petersson.
 • Fundarherbergi-og-vinnurymi-a-8.-haed
  Fundarherbergi og vinnurými á 8. hæð. Ljósmynd: Karl Petersson.

Vinnueftirlitið flutti í nýtt leiguhúsnæði að Dvergshöfða 2 í maí síðastliðnum. Stofnunin var áður til húsa við Bíldshöfða 16 þar sem starfsmenn voru í hefðbundnu skrifstofufyrirkomulagi.

Nýja húsnæðið við Dvergshöfða er aftur á móti nútímalegt og opið skrifstofuhúsnæði. Enginn starfsmaður er með lokaða einkaskrifstofu, en þar er mikið af lokuðum fundarýmum og notalegum næðisrýmum. Áhersla var lögð á að hafa góða starfsmannaaðstöðu og var mikið lagt upp úr góðri hljóðvist og notalegu umhverfi.

Haldin var vígsla í Vinnueftirlitinu í október. Í tilefni vígslunnar gaf Framkvæmdasýslan út upplýsingablað mannvirkis þar sem er að finna nánari upplýsingar um verkefnið. Í framhaldinu tók Karl Petersson meðfylgjandi myndir af hinu nýja húsnæði Vinnueftirlitsins.

Gíslína Guðmundsdóttir, verkefnastjóri FSR, sá um gerð leigusamnings og hafði umsjón með hönnunarferlinu og Ármann Óskar Sigurðsson, verkefnastjóri FSR, sá um eftirfylgni og eftirlit með framkvæmdum.

Verkkaupar voru velferðarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og Vinnueftirlit ríkisins.