31. janúar

Afhending sjúkrahótels við Landspítala Hringbraut í dag

Formleg afhending nýs sjúkrahótels við Landspítala á Hringbraut verður kl. 14 í dag. Sjúkrahótelið er fyrsta nýbyggingin í heildaruppbyggingunni sem fram undan er í Hringbrautarverkefninu.

Húsið er á norðvesturhluta lóðar spítalans milli kvennadeildahúss, K-byggingar og Barónsstígs. Sjúkrahótelið er á fjórum hæðum auk kjallara.  Í sjúkrahótelinu eru 75 herbergi. 

Byggingin er 4.258 fermetrar að stærð (brúttó) eða 14.780 rúmmetrar (brúttó) með kjallara og tengigöngum sem tilheyra hótelinu. Innangengt er milli sjúkrahótelsins og barnaspítalans / kvennadeilda. 

Aðalhönnuðir hússins eru KOAN-hópurinn en forhönnun, skipulagsgerð, hönnun gatna og lóðar var unnin af Spital-hópnum. Húsið er prýtt með steinklæðningum, listaverki eftir Finnboga Pétursson myndlistarmann, samkvæmt samkomulagi við Listskreytingarsjóð. Listaverkið vísar í íslenskt berg.Klaedning-sjukrahotel

Framkvæmdir hófust haustið 2015 og lauk í janúar 2019. Nýr Landspítali ohf. var verkkaupi verksins. Verkið var unnið í samvinnu við Framkvæmdasýslu ríkisins. Eftirlit og hlutverk byggingarstjóra var í höndum Verkís hf. Aðalverktaki við verkið að stórum hluta var Munck Íslandi ehf. 
  
Verkefnið er unnið samkvæmt aðferðafræði upplýsingalíkana mannvirkja (BIM) og aðferðafræði vistvænnar hönnunar. Stefnt er að því að byggingin verði vottuð sem vistvænt mannvirki samkvæmt alþjóðlega umhverfisvottunarkerfinu BREEAM.