8. maí

Verkefnamiðað vinnuumhverfi Sjúkratrygginga

  • Si_1525773635088
    Mynd: RÚV

Sjúkratryggingar Íslands flutti alla starfsemi sína við Vínlandsleið nýlega þar sem starfsfólk er í teymisrýmum. 

Starfsfólk Sjúkratrygginga Íslands flutti alla starfsemi sína við Vínlandsleið nýlega. Áður var starfsemin á tveimur stöðum, annars vegar við Rauðarárstíg og hins vegar við Vínlandsleið. Sjúkratryggingar er fyrsta ríkisstofnunin til að innleiða verkefnamiðað vinnuumhverfi  og við breytingarnar minnkaði vinnurými starfsmanna um 1 þúsund fermetra.

Allir starfsmenn hafa aðgang að læstum skáp, geta pantað kyrrðar- eða fundarherbergi og valið sér sæti eftir því hvaða verkefni þeir eru að fara að takast á við hverju sinni. Starfsmenn hafa ekki fasta starfsstöð og skilja hverju sinni við hana eins og þeir komu að henni. 

Í umfjöllun í Speglinum á RÚV 4. maí síðastliðinn kemur fram að samskipti manna hjá Sjúkratryggingum séu meiri eftir breytingarnar og þvert á svið. Stofnunin ætli að fylgjast með áhrifum stefnunnar og leggja kannanir fyrir starfsfólkið. Þá kemur fram  að í Noregi þar sem ríkisstarfsmenn eru allir að fara í opið vinnurými óttist sumir að eiga erfitt með að sinna vinnu sem krefjist einbeitingar. Sigríður Halldórsdóttir, arkitekt, hjá ASK arkitektum, sem hannaði nýtt vinnurými fyrir bæði Íslandsbanka og Sjúkratryggingar, segir að hugmyndafræðin virki vel fyrir flest fyrirtæki, þetta sé það sem koma skuli í bland við aukna áherslu á samskipti og samvinnu. Hugmyndafræðin sé umhverfisvæn, stuðli að auknum samskiptum og betri loftgæðum á vinnustað. Umfjöllunina í heild sinni má finna hér.  

Umsjón, þarfagreining, húslýsing, ráðgjöf og eftirlit verkefnisins var á höndum FSR.