26. september

Keppendur hafa skilað samkeppnistillögum um viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið og skipulag á Stjórnarráðsreit

Dómnefndir munu nú fjalla um tillögurnar og verða úrslit kynnt í Safnahúsinu við Hverfisgötu mánudaginn 3. desember 2018.

Tvær opnar samkeppnir á vegum forsætisráðuneytisins voru auglýstar í byrjun apríl 2018. Annars vegar er um að ræða framkvæmdasamkeppni um 1.200 m2 viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið og hins vegar hugmyndasamkeppni um skipulag svokallaðs Stjórnarráðsreits sem markast af Ingólfsstræti, Skúlagötu, Klapparstíg og Lindargötu.

Markmiðið með samkeppninni um viðbygginguna við gamla Stjórnarráðshúsið er meðal annars að fá fram bestu mögulegu lausn á viðbyggingu aftan við Stjórnarráðshúsið svo unnt sé að nýta hina sögulegu byggingu áfram sem aðsetur forsætisráðuneytis og fundarstað ríkisstjórnar Íslands og ráðherranefnda.

Markmiðið með samkeppninni um skipulag Stjórnarráðsins er meðal annars að fá fram lausn þar sem áhersla er lögð á raunhæfar og spennandi tillögur um heildarlausn á skipulagi á reitnum þannig að byggja megi upp á heildstæðan hátt framtíðarhúsnæði ráðuneyta, stofnana ríkisins og dómstóla meðal annars með hagræðingu í huga. 

Í dómnefnd um skipulag Stjórnarráðsreits sitja:

Tilnefndir af verkkaupa:

 • Stefán Thors, formaður dómnefndar (forsætisráðuneyti)
 • Óðinn H. Jónsson skrifstofustjóri, (forsætisráðuneyti)
 • Ágústa Sveinbjörnsdóttir, arkitekt (Reykjavíkurborg, fyrir hönd verkkaupa)
 • Halldóra Vífilsdóttir, arkitekt FAÍ (fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðuneytis)

Tilnefndir af Arkitektafélagi Íslands:

 •  Hildigunnur Haraldsdóttir, arkitekt FAÍ
 •  Þórarinn Malmquist, arkitekt FAÍ

Tilnefndur af Félagi íslenskra landslagsarkitekta:

 • Ólafur Melsted, landslagsarkitekt FÍLA

Í dómnefnd um viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið sitja:

Tilnefndir af verkkaupa:

 • Stefán Thors, formaður dómnefndar (forsætisráðuneyti)
 • Óðinn H. Jónsson, skrifstofustjóri (forsætisráðuneyti)
 • Margrét Harðardóttir, arkitekt FAÍ

Tilnefndir af Arkitektafélagi Íslands:

 • Sigrún Birgisdóttir, arkitekt FA
 • Pétur H. Ármannsson, arkitekt FAÍ