3. september

Tilboð í byggingu fyrir Alþingi opnuð

Fjögur tilboð bárust

Tilboð í uppsteypu og fullnaðarfrágang skrifstofubyggingar Alþingis voru opnuð í dag. Fjögur tilboð bárust, en útboð var gert á EES svæðinu. 

Útboðið var auglýst í lok júní, gögn afhent 1. júlí og skiluðu fjögur verktakafyrirtæki inn tilboðum. 

Útboðið tók til framkvæmda við jarðvinnu, uppsteypu og fullnaðar- og lóðarfrágangs hússins. Hönnun þess byggir á samkeppnistillögu Studio Granda sem hlaut 1. verðlaun í samkeppni um hönnun hússins. Aðilar hönnunarteymis eru Studio Granda og EFLA.

Byggingin verður skrifstofu og þjónustuhús Alþingis og mun standa við horn Tjarnargötu og Vonarstrætis. Fyrirhuguð nýbygging (grunnhús á 4 hæðum ásamt 5. hæð og kjallara) er um 6.362 m2 að stærð og þar af er bílakjallari um 1.300 m2.

Mjótt var á mununum á milli bjóðenda, eins og sjá má á tilboðunum:

Bjóðandi Tilboð í verk A % af áætlun Tilboð í verk B
ÞG verktakar 3.047.032.626 93% 3.327.158.429
Ístak hf. 3.066.270.625 94% 3.359.318.174
Eykt. 3.897.277.130 119% 4.267.244.575
Rizzani de Eccher S.p.A. 4.030.076.362 123% 4.423.664.337
Kostnaðaráætlun FSR 3.270.030.787 100%
Tilboðin verða nú tekin til skoðunar hjá FSR.