10. júní

Þjóðskjalasafn fær aukið geymslupláss

Fyrsta skrefið í uppbyggingu nútímalegs geymsluhúsnæðis fyrir safnið

Þjóðskjalasafn fær í ágúst til afnota 1.370 fermetra geymsluhúsnæði þar sem prentsmiðjan Oddi var áður til húsa. Til stendur að bæta úr brýnni húsnæðisþörf safnsins á næstu árum.

Ríkiseignir og HB 5-7 hafa undirritað samning um leigu þess fyrrnefnda á 1.370 fermetra húsæði á Höfðabakka 7. Húsnæðið verður notað fyrir skjalageymslur Þjóðskjalasafns Íslands. Samningurinn er til fimm ára með framlengingarákvæði. Um er að ræða húsnæði sem áður hýsti Prentsmiðjuna Odda.

Gera þarf nokkrar breytingar á húsnæðinu, en þær verða gerðar af leigusala. Þjóðskjalasafns fær húsnæðið til afhendingar í ágúst.

Húsnæðið verður nýtt undir sívaxandi safnkost Þjóðskjalasafnsins, en er fyrsti áfanginn í uppbyggingu nútímalegs geymsluhúsnæðis fyrir stofnunina.

FSR hefur unnið að húsnæðismálum Þjóðskjalasafns undanfarin misseri. Nú liggur fyrir frumathugun um framtíðar húsnæðisskipan safnsins.

Þjóðskjalasafnið er nú með tvö geymslurými á leigu, annarsvegar í Brautarholti 6 og hinsvegar við Lauganesveg 91. Þar eru geymd samtals um 12.000 hillumetrar gagna á 970 m2. Húsnæðið í Brautarholti er í slæmu ástandi og leigurýmið í Laugarnesi er sömuleiðis óhentugt. Þá er það staðsett þannig að ganga þarf í gegnum mörg önnur rými til að komast að því. Hvorug geymslan uppfyllir brunakröfur byggingarreglugerðar eða lög og reglugerðir um varðveislu skjala.

Næsti áfangi samkvæmt frumathugunarskýrslu FSR verður að byggja eða leigja varanlegar geymslur sem uppfylla ýtrustu kröfur um varðveislu á gögnum ÞÍ.