2. september

Nýsköpunarmót FSR haldið í fyrsta sinn

Þrjár hugmyndir verðlaunaðar

Starfsfólk Framkvæmdasýslu ríkisins hélt í sumar Nýsköpunarmót sem ætlað var að finna nýjar hugmyndir til að bæta og auka þjónustu stofnunarinnar. Alls bárust 24 tillögur frá 11 höfundum, hópum og einstaklingum. 

Hlutverk Framkvæmdasýslu ríkisins er að vera leiðandi afl á sviði opinberra framkvæmda með það að markmiði að bæta verklag og auka skilvirkni, hagkvæmni og gæði við framkvæmdir ríkisins. Framsetning hugmynda í mótinu var frjáls, fyrir hópa eða einstaklinga, og eina skilyrðið var að tillagan uppfyllti a.m.k. eitt af skilgreindum skilyrðum í hverjum af þeim þremur meginflokkum sem einkenna opinbera nýsköpun.

NyskopStarfsfólk FSR vann í sumar að því að útbúa hugmyndir um hvernig stofnunin gæti sinnt hlutverki sínu betur. Hugmyndirnar voru að lokum kynntar fyrir öðru starfsfólki og dómnefnd sem skipuð var sérfræðingi úr Fjármálaráðuneytinu og tveimur frá FSR. 

Ákveðið var að veita verðlaun í þremur flokkum; frumlegasta hugmyndin, snjallasta hugmyndin og besta kynningin.

Viðurkenningu fyrir snjöllustu hugmyndina fékk verkefnið „Súludans“ en í umsögn dómnefndar um verkefnið segir meðal annars:

„Hugmyndin snýst um að skapa myndræna framsetningu húsrýmisáætlana. Í einfaldleika sínum er hugmyndin bráðsnjöll, þ.e að taka viðurkennt staðlað verklag og umbylta framsetningu á hugmyndum og lausnum sem verða til í nánu samstarfi FSR og viðskiptavina. Með betur fram settum upplýsingum er stofnunum og notendum mannvirkja gert auðveldara að skilja og átta sig á því hvað óskir og væntingar hafa í för með sér, samtalið milli FSR og viðskiptavina verður markvissara sem leiðir til betri lausna fyrir alla. Jafnframt má gera ráð fyrir því að góð útfærsla á hugmyndinni muni auðvelda til muna innleiðingu hugmynda um verkefnamiðað vinnuumhverfi og um leið gera opinbera vinnustaði meira aðlaðandi fyrir hæfileikaríkt fólk í framtíðinni.“

Guðrún Ingvarsdóttir forstjóri FSR telur ljóst að Nýsköpunarmótið sé komið til að vera og hefur verið ákveðið að þeim þremur tillögum sem hljóta verðlaun verði hrint í frekari útfærslu á næstunni og í kjölfarið innleiddar í starfsemi FSR. Þá er stefnt að því að frumlegasta tillagan verði framlag FSR á Nýsköpunarmóti hins opinbera sem haldið verður í fyrsta sinn nú í haust.