17. desember

Niðurstaða í hönnunarsamkeppni um nýbyggingu fyrir Alþingi á Alþingisreit

  • Tillaga Studio Granda
    Tillaga Studio Granda

Úrslit í samkeppni um hönnun nýbyggingar fyrir Alþingi á Alþingisreit, liggja nú fyrir. 22 tillögur bárust frá 7 þjóðlöndum. Dómnefnd var einhuga í niðurstöðu sinni en tillaga Studio Granda hlaut fyrstu verðlaun.

 Höfundar tillögu Studio Granda eru arkitektarnir Margrét Harðardóttir og Steve Christer auk Kristinns E. Hrafnssonar sem er höfundur listskreytingar. Tillaga T.ark hlaut önnur verðlaun og eru höfundar tillögu þau Hildur Steinþórsdóttir, Michael Blikdal Erichsen, Halldór Eiríksson og Sóley L. Brynjarsdóttir, höfundar listskreytingar eru Hildigunnur Birgisdóttir og Unnar Örn Auðarson og höfundar glerjungahönnunar eru Studio Brynjar og Veronica og Bjarnheiður Jóhannsdóttir.
PKdM hlaut þriðju verðlaun en Pálmar Kristmundsson, Fernando de Mendonca, Björg Halldórsdóttir, Hjalti Guðlaugsson og  Massimo Munari eru höfundar tillögu, höfundur listskreytingar er Egill Sæbjörnsson. Einnig voru fimm tillögum veittar sérstakar viðurkenningar.

Í áliti dómnefndar um vinningstillögu segir að:“ Sú tillaga sem dómnefnd er einhuga um að velja til 1. verðlauna felur í sér sannfærandi og listræna heildarlausn á þeim húsnæðis- og skipulagsmálum Alþingis sem aðkallandi er að hrinda í framkvæmd. Jafnframt sýnir hún fram á dýrmæta möguleika til framtíðarþróunar á húsakosti þingsins. Höfundar leitast við að tengja nýbygginguna við sögu Alþingis og þróun byggðar í Kvosinni allt frá landnámsöld. Minjar um upphaf byggðar og minni úr seinni tíma byggingarsögu Reykjavíkur eru dregin fram og mynda samþætta heild með nýrri byggingarlist sem ber samtíð sinni vitni af hógværð og tillitsemi við nánasta umhverfi.“, ennfremur: „Í heild er tillagan verðugur merkisberi framsækinnar og vandaðrar byggingarlistar fyrir Alþingi á 21. öldinni á líkan hátt og Alþingishúsið við Austurvöll var tákn nýrra tíma í listhugsun og verkmenningu á 19. öld.“

Áætlað er að byggingin verði um 5800 m², en þar af er um 1200 m² bílageymsla neðanjarðar. Byggingin mun rísa á Alþingisreit á horni  Tjarnargötu og Vonarstrætis. Í byggingunni, sem mun tengjast beint öðrum byggingum Alþingis á reitnum, munu verða skrifstofur þingmanna og aðstaða þingflokkanna, ennfremur nefndarsvið Alþingis auk aðstöðu fyrir forseta Alþingis.  Nánast öll þessi starfsemi fer nú fram í leiguhúsnæði við Austurvöll.

Samkeppnin fór fram í samvinnu við Arkitektafélag Íslands og var hún auglýst á evrópska efnahagssvæðinu. Gert er ráð fyrir að hönnun verði lokið á næsta ári og að byggingin verði tilbúin um áramótin 2019/2020.

Dómnefndarfulltrúar tilnefndir af Alþingi:
Formaður dómnefndar Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi forseti Alþingis
Brynhildur Pétursdóttir, alþingismaður
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis
Sigurður Einarsson, arkitekt FAÍ,

Dómnefndarfulltrúar tilnefndir af Arikitektafélagi Íslands:
Anna María Bogadóttir, arkitekt FAÍ
Pétur H. Ármannsson, arkitekt FAÍ
Sigríður Ólafsdóttir, arkitekt FAÍ

Framkvæmdasýsla ríkisins var umsjónaraðili samkeppninnar fyrir hönd verkkaupa.

Sýning á öllum tillögum verður á 1. hæð Landsímahússins við Austurvöll (gengið inn við hlið Nasa), virka daga til 30. desember 2016 á milli kl. 16 og 18.

Í dómnefndaráliti er fjallað nánar um allar innsendar tillögur.