22. október

Hönnunarverðlaun Íslands

Kallað eftir tilnefningum til Hönnunarverðlauna Íslands

  • Hönnunarverðlaun Íslands

Óskað er eftir tilnefningum til Hönnunarverðlauna Íslands 2015. Opnað verður fyrir tilnefningar mánudaginn 19. október, en hægt er að benda á eigin verk og verk annarra til miðnættis sunnudaginn 25. október. 

Hönnunarmiðstöð Íslands stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins. 

Hönnunarverðlaun Íslands skulu veitt hönnuði, arkitekt, hönnunarteymi eða -stofu fyrir framúrskarandi ný verk; einstakan hlut, verkefni eða safn verka. Verðlaunin voru afhent í fyrsta sinn 2014. Handhafi þeirra hlýtur peningaverðlaun að upphæð 1.000.000 kr.

Smelltu hér til að tilnefna

Til að hljóta Hönnunarverðlaun Íslands 2015 þurfa hönnuðir að vera félagar í einu af aðildarfélögum Hönnunarmiðstöðvar Íslands eða vera fagmenn á sínu sviði. Ný verk teljast til þeirra verka sem lokið hefur verið við á síðustu tveim til þrem árum fyrir afhendingu verðlaunanna. Tekið er tillit til eðlismunar á hönnunargreinunum í þessu samhengi þar sem verkefni taka mislangan tíma og í sumum tilfellum mörg ár. Vinningshafar geta komið úr öllum greinum hönnunar en þurfa að skara verulega fram úr með verkefni sínu eða vinnu. 

Besta fjárfesting í hönnun 2015 er ný viðurkenning sem veitt verður fyrirtæki sem hefur með eftirtektarverðum hætti fjárfest í hönnun og arkitektúr eða innleitt aðferðir hönnunar í grunnstarfsemi sína. Fyrirtæki sem eiga þess kost að hljóta viðurkenninguna Besta fjárfesting í hönnun 2015 hafa hönnun og arkitekúr að leiðarljósi frá upphafi verka til að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfi. Öll fyrirtæki sem starfa á Íslandi koma til greina.

Markmið Hönnunarverðlauna ÍslandsTilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á mikilvægi og gæðum íslenskrar hönnunar og arkitektúrs ásamt því að veita hönnuðum, arkitektum og fyrirtækjum viðurkenningu fyrir vel unnin störf.

Vægi hönnunar í menningu okkar, samfélagi og viðskiptalífi er óðum að aukast. Því eru Hönnunarverðlaun Íslands mikilvægur liður í því að vekja athygli á gæðum íslenskrar hönnunar og arkitektúrs og auka skilning á gildi góðrar hönnunar. Hönnunarverðlaunin gera íslenska hönnuði og arkitekta og þau fyrirtæki sem leggja áherslu á hönnun sýnilegri og þar með áhrifameiri í samfélaginu. 

Í ár verða Hönnunarverðlaun Íslands afhent þriðjudaginn, þann 24. nóvember.
Dómnefnd:

Formaður dómnefndar er Harpa Þórsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands og fyrrum deildarstjóri sýningardeildar Listasafns Íslands. Auk Hörpu sitja eftirtaldir aðilar í dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands 2015.

  • Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri, fulltrúi Samtaka iðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins
  • Katrín Káradóttir, fatahönnuður og fagstjóri fatahönnunardeildar Listaháskóla Íslands 
  • Massimo Santanicchia, arkitekt og lektor við Listaháskóla Íslands 
  • Sigríður Sigurjónsdóttir, vöruhönnuður og eigandi Spark Design Space 
  • Örn Smári Gíslason, grafískur hönnuður