18. mars

Húsavík: Mikil þáttaka í hönnunarsamkeppni

32 tillögur bárust í keppnina

  • Frá Húsavík.

Dómnefnd í samkeppni um hönnun hjúkrunarheimilis á Húsavík bíður ströng dagskrá, en þrjátíu og tvær tillögur bárust í samkeppnina.

Framkvæmdasýsla ríkisins f.h. heilbrigðisráðuneytisins og Sveitarfélagsins Norðurþings buðu í desember sl. til opinnar hönnunarsamkeppni (framkvæmdasamkeppni) um nýbyggingu hjúkrunarheimilis á Húsavík, nánar tiltekið á lóðinni nr. 10 við Auðbrekku. Samkeppnin fer fram í samstarfi við Arkitektafélag íslands og var lögum samkvæmt auglýst á gjörvöllu EES-svæðinu. Samkeppnin er með öllu rafræn, en það vinnulag sparar bæði fé og er umhverfisvænna en eldra fyrirkomulag.Um er að ræða 60 rýma hjúkrunarheimili, auk tengigangs á milli nýbyggingar og núverandi hjúkrunarheimilis Hvamms. 

Lokadagsetning skila í samkeppnina var 6. mars síðastliðinn og bárust alls 32 tillögur.

Dómnefnd bíður nú það verkefni að yfirfara allar tillögur með tilliti til fyrirliggjandi krafna, sem meðal annars byggja á húsrýmisáætlun, samspili við nánasta umhverfi auk þess sem byggingin þarf að vera hönnuð með umhverfissjónarmið að leiðarljósi og verður vottuð af BREEAM stofnuninni. Dómnefnd áætlar að störfum hennar ljúki fyrir 19. maí næstkomandi og að úrslit verði þá kynnt.

Veitt verða þrenn verðlaun að heildarupphæð 10 milljónir kr. og þar af verða fyrstu verðlaun að lágmarki 5 m.kr. Í framhaldi af hönnunarsamkeppni er fyrirhugað að ganga til samningskaupa skv. 3. mgr. 39. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016 um þjónustusamning við þátttakanda/höfund þeirrar tillögu sem dómnefnd velur til áframhaldandi hönnunar á húsinu. Hönnunarkostnaður er áætlaður um 11,5% af framkvæmdarkostnaði eða um 210 m.kr. án/vsk.