12. nóvember

Framkvæmdum lokið í fjallinu Kubba á Ísafirði

  • Kubbi
    Ljósmynd: Samúel Orri Stefánsson, Tækniþjónusta Vestfjarða ehf.
  • Vefur
    Ljósmynd: Samúel Orri Stefánsson, Tækniþjónusta Vestfjarða ehf.

Verkið fól í sér að setja upp stoðvirki úr stáli (e. snow bridges) til snjóflóðavarna á upptakasvæðum snjóflóða í Bröttuhlíð í Kubba ofan Holtahverfis á Ísafirði. 

Unnið hefur verið að uppsetningu um 1.900 metrum af stoðvirkjum í Bröttuhlíð í fjallinu Kubba fyrir ofan Holtahverfi síðustu tvo sumur og er framkvæmdum nú lokið. ÍAV – Íslenskir aðalverktakar hf. sáu um uppsetninguna, framleiðandi á stálinu (hönnun, smíði og afhending) var Mair Wilfried GmbH, St. Lorenzen á Ítalíu og stálið var galvanhúðað hjá Ferro Zink hf. á Akureyri. Frumhönnun var í höndum Verkís hf. Hæð stálgrindanna mælt þvert á halla fjallshlíðar (Dk) er 3,0 m, 3,5 m og 4,0 m.

Lokaúttekt með fulltrúum uppsetningarverktaka, ÍAV, og verkefnastjóra FSR fór fram 8. nóvember síðastliðinn með minni háttar athugasemdum. Verið er að vinna úr þeim, lokafrágangi og brottflutningi á tækjum og búnaði. Síðasti vinnudagur verktaka er 14. nóvember næstkomandi.
  
FSR hefur haft umsjón og eftirlit með verkinu fyrir hönd Ísafjarðarbæjar. Tækniþjónusta Vestfjarða aðstoðaði við eftirlit. Framkvæmdir gengu vel og tókst að ljúka þeim fyrir lok umsamins framkvæmdatíma. Verktaki hefur staðið að fullu við skuldbindingar sínar samkvæmt útboðsgögnum. Aðstaða verktaka hefur verið fjarlægð og vinnusvæðið hreinsað að fullu.