5. nóvember

Framkvæmdir við svefnskála á Keflavíkurflugvelli hefjast í desember

Störf fyrir að jafnaði 20 manns á framkvæmdatímanum

Landhelgisgæslan og Alverk undirrituðu í vikunni samning um byggingu 50 rýma svefnskála á öryggissvæði Keflavíkurflugvallar. Samningurinn var gerður í kjölfar alútboðs sem FSR auglýsti í maí síðastliðnum. Samningsupphæðin er 473 milljónir króna með virðisaukaskatti.

Landhelgisgæslan og Alverk undirrituðu í vikunni samning um byggingu 50 rýma svefnskála á öryggissvæði Keflavíkurflugvallar. Samningurinn var gerður í kjölfar alútboðs sem FSR auglýsti í maí síðastliðnum. Samningsupphæðin er 473 milljónir króna með virðisaukaskatti.

Svefnskálarnir eru ætlaðir erlendum liðsafla sem dvelur tímabundið á Íslandi. Þeir eru brýn viðbót við skála sem þegar eru á öryggissvæðinu. Til stendur að fjölga svefnplássum í 300 talsins fram til ársins 2024. Landhelgisgæslan annast daglegan rekstur öryggissvæðanna í umboði utanríkisráðuneytis.

Svefnskálinn sem nú fer í byggingu er sá fyrri af tveimur sem fyrirhugað er að byggja á næstu tveimur árum, en endanleg ákvörðun um byggingu liggur ekki fyrir. Aðalhönnuður byggingarinnar er Sigríður Ólafsdóttir arkitekt hjá Grímu ehf. og um verkfræðihönnun sér Verkfræðistofan EFLA.

Aðalgeir Hólmsteinsson framkvæmdastjóri Alverks segir hönnun og undirbúning framkvæmda nú í fullum gangi þessar vikurnar og áætlar að verklegar framkvæmdir á svæðinu hefjist í desember. Um 20 manns munu að jafnaði koma að framkvæmdunum, en Alverk er þegar í viðræðum við jarðvinnuverktaka og fleiri aðila á Suðurnesjum varðandi aðkomu þeirra að verkefninu. Ætlun Alverks er að eiga samstarf við aðila af nærliggjandi svæðum eins og kostur er.

Ætlunin er að framkvæmdum ljúki um miðjan desember 2021.