27. september

Framkvæmdir við Hús íslenskunnar á undan áætlun

Framkvæmdir ganga vel við Hús íslenskunnar. Uppsteypa á sökklum bílakjallara og aðalbyggingar eru hafnar.

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og Guðrún Ingvarsdóttir forstjóri Framkvæmdasýslunnar undirrituðu þann 30. ágúst síðastliðinn samning við ÍSTAK um byggingu Húss íslenskunnar. Karl Andreassen forstjóri verktakafyrirtækisins undirritaði samninginn fyrir þess hönd. 

Á þeim tæpa mánuði sem liðinn er frá undirrituninni hefur verið mikill gangur í framkvæmdunum á Melunum. Tugir starfsmanna hafa keppst við að slá upp fyrir undirstöðum hússins og bílakjallara við húsið. Á meðfylgjandi myndum má sjá að "hola íslenskra fræða" er óðum að fyllast af fagurlega mótaðri steinsteypu. 

Að sögn byggingastjóra hússins og verkefnastjóra FSR hefur góð tíð undanfarið gert starfsfólki á svæðinu mögulegt að komast ögn á undan áætlun. Búast má við að botnplata hússins verði steypt að fullu í febrúar 2020, hamli vetrarveður ekki framkvæmdum úr hófi.