Bygging nr. 130, Keflavíkurflugvelli

Þakendurnýjun og breytingar innanhúss, 1. áfangi

Framkvæmdasýsla ríkisins, f.h. Landhelgisgæslu Íslands, óskar eftir tilboðum í framkvæmdir við þakendurnýjun og breytingar innanhúss í byggingu nr. 130, sem er innan öryggissvæðis Keflavíkurflugvallar. Um er að ræða innanhúsbreytingar í rýmum á 2. hæð byggingarinnar, nánar tiltekið í stjórnsal, eldhúsi, fundarsal, skrifstofum og salernum. Um er að ræða breytingar á veggjum, gólfum. loftum, hurðum og innréttingum. Gerðar eru breytingar á raflögnum og á vatnslagna - og loftræsikerfum. Lagt verður nýtt brunaslöngukerfi á bæði 1. og 2. hæð byggingarinnar. Utanhúss er um að ræða endurnýjun á einangrun og þakdúk auk nauðsynlegra múrviðgerða á steyptu þakyfirborði byggingarinnar. Bygging nr. 130 er stjórnstöð samþætts loftvarnakerfis NATO hér á landi og er um 2.800 m2 á þremur hæðum og byggt sem öryggis- og varnarmannvirki og inniheldur viðkvæma starfsemi og búnað.

Fara þarf inn um vaktað hlið til þess að komast á verkstað og skulu starfsmenn verktaka hafa öryggis- og aðgangsheimild inn á vinnusvæðið og fylgja öryggiskröfum Landhelgisgæslu Íslands, Isavia og þeim reglum sem gilda á öryggis- og varnarsvæðum. Bakgrunnskoðunar verður krafist af verktaka og öllum starfsmönnum sem koma að verkinu og einnig af undirverktökum. Allir starfsmenn verktaka þurfa að fylla út trúnaðaryfirlýsingarform og mæta á kynningu í öryggismálum vegna byggingar 130. Tilboðsskrá með öllum magntölum fylgir með útboðsgögnum.

Vettvangsskoðun verður haldin fimmtudaginn 22. september 2016 kl. 09:00 - 10:00 að viðstöddum fulltrúa verkkaupa.

Verkinu innanhúss skal vera að fullu lokið eigi síðar en 31. janúar 2017 fyrir utan brunaslöngukerfisins sem skal vera að fullu lokið eigi síðar en 28. febrúar 2017.

Verkinu utanhúss skal vera að fullu lokið eigi síðar en 2 júní 2017.

Útboðsgögn verða til afhendingar hjá Framkvæmdasýslu ríkisins, Borgartúni 7A, 105 Reykjavík frá og með hádegi þriðjudaginn
20. september 2016.

Tilboðin verða opnuð hjá Framkvæmdasýslu ríkisins þriðjudaginn 4. október  2016 kl. 14:00 að viðstöddum þeim bjóðendum sem þess óska.

Útboðsnúmer: 6061031

Opnun tilboða: 4.10.2016