• Fmos_1538144612213
  Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ. Mynd: a2f arkitektar.

Umhverfismál

Virðing fyrir umhverfinu skiptir öllu máli

FSR hefur verið í fararbroddi við innleiðingu vistvænna vinnuaðferða við mannvirkjagerð og hefur það að markmiði að öll verk verði vistvæn í framtíðinni. 

Byggingaiðnaður ábyrgur fyrir stórum hluta losunar

Framkvæmdasýslan hefur umsjón með húsnæðisöflun ríkisaðila. Ríkið er stærsti einstkaki húsbyggjandi landsins. Framkvæmdasýslan stýrir stórum hluta byggingaframkvæmda sem ríkið stendur fyrir og aflar húsnæðis með öðrum hætti, til dæmis með leigu af þriðja aðila.

Markmið Framkvæmdasýslunnar er alltaf að lágmarka umhverfisáhrif af starfi sínu. Umhverfisvitund er innbyggð í ferla og starfsemi stofnunarinnar. Þannig er til dæmis lagt upp með að leggja sem fæsta fermetra undir starfsemi, bæta nýtingu húsnæðis, auka sveigjanleika rýma, horfa til umhverisvænna efna og lausna í innréttingu og byggingu húsnæðis og að vanda þannig til verka að ending húsnæðis verði sem best.

Á þessum síðum hefur verið teknar saman upplýsingar um með hvaða hætti Framkvæmdasýslan gætir að umhverfinu í störfum sínum.

Hvað er vistvæn bygging?

Vistvæn bygging grundvallast á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar þar sem leitast er við að mæta þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að mæta sínum þörfum. 

Vistvæn bygging er byggð á aðferðum sem eru umhverfisvænar, nýta auðlindir á hagkvæman hátt og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum byggingarinnar í gegnum allan vistferil hennar. Við hönnun vistvænna bygginga er meðal annars lögð áhersla á orkumál, efnisval, staðarval og heilnæmara umhverfi. 

Vistvæn bygging ...

 • er endingargóð og sveigjanleg
 • er hönnuð með líftíma byggingar í huga varðandi umhverfisáhrif og heildarkostnað
 • nýtir rými á hagkvæman hátt
 • tryggir heilnæmt inniloft, lýsingu og hljóðvist
 • veldur minni úrgangi á byggingartíma og í rekstri
 • er byggð úr vistvænum byggingarefnum
 • nýtir vel orku, vatn og aðrar auðlindir
 • stuðlar að vistvænum samgöngum og aðgengi fyrir alla
 • stuðlar að vistvænum og hagkvæmum rekstri

Til hvers að byggja vistvænt?

Sjálfbær þróun í byggingariðnaðinum er ein af stóru áskorunum samtímans. Byggingariðnaðurinn einn og sér hefur margvísleg áhrif á menn og umhverfið. Hönnun bygginga, staðsetning, efnisnotkun og orku- og vatnsnotkun hefur mikið að segja varðandi losun gróðurhúsalofttegunda. Tölur sýna að rekja megi allt að 30-40% orkunotkunar og útblásturs gróðurhúsalofttegunda til byggingariðnaðarins. Sé rétt staðið að hönnun og skipulagi getur byggingariðnaðurinn spilað lykilhlutverk í því að stuðla að sjálfbærri þróun samhliða því að svara þörfinni fyrir ólíkar gerðir bygginga og tæknilausna.

Sjálfbærar áherslur í byggingariðnaði geta haft margskonar ávinning í för með sér:

 • Minni orkunotkun
 • Aukinn líftími bygginga
 • Minni viðhaldskostnað
 • Heilnæmt umhverfi

Framkvæmdasýslan og vistvænar byggingar

Framkvæmdasýsla ríkisins er í fararbroddi við innleiðingu á vistvænum áherslum í byggingariðnaði. Stofnunin leggur mikið upp úr því að sýna fordæmi, vera fyrirmynd og tryggja gæði og fagmennsku í opinberum framkvæmdum.

BREEAMFramkvæmdasýslan styðst við breska vistvottunarkerfið BREEAM í stærstu verkefnum stofnunarinnar. Markmiðið með kerfinu er að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum yfir líftíma bygginga með því að stuðla að umhverfisvænni hönnun og heilsusamlegra umhverfi fyrir notendur. 

Framkvæmdasýslan er aðili að Nordic Built Cities sem er norrænt samstarfsverkefni sem hefur það að markmiði að hvetja til og þróa samkeppnishæfar lausnir í vistvænni mannvirkjagerð ásamt því að vera leiðandi í nýsköpun, grænum hagvexti og velferð. 

Flest ríki heims, þar á meðal Ísland, hafa skulbundið sig til að stuðla að sjálfbærri þróun með undirritun Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og Parísarsáttmálans. Tekið er tillit til umhverfissjónarmiða og sjálfbærrar þróunar í ritunum Menningarstefna í mannvirkjagerð - Stefna íslenskra stjórnvalda í byggingarlist og Stefnu um vistvæn innkaup ríkisins.