Skipurit

Framkvæmdasýsla ríkisins er ein af stofnunum fjármálaráðuneytisins og starfar samkvæmt lögum nr. 84/2001 um skipan opinberra framkvæmda og reglugerð nr. 75/2001 um skipulag opinberra framkvæmda.

Skýringar með skipuriti FSR

Skipuritið tók gildi 1. september 2020.

Skipulag FSR byggir á þremur fagsviðum er sinna kjarnastarfsemi stofnunarinnar, rekstrarsviði er sinnir rekstrartengdum þáttum auk skrifstofu forstjóra.

Forstjóri

Forstjóri Framkvæmdasýslunnar ber ábyrgð á að rekstur stofnunarinnar sé í samræmi við fjárlög og langtímaáætlun hennar og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Samkvæmt lögum situr forstjóri í samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir, SOF .

Fjárfestingaáætlanir og greiningar

Sviðið sinnir greiningum vegna fjárfestingaverkefna og vinnur að þróun og innleiðingu Framkvæmda- og fjárfestingaáætlunar í umboði FJR. Sviðið sér um utanumhald og þróun kostnaðarbanka FSR í samvinnu við rekstrarsvið og vinnur greiningar vegna skilamata. Þá sér sviðið um utanumhald og þróun gagnagrunna vegna eignamála og leigusamninga ríkisins. Sviðið veitir öðrum sviðum FSR stuðning við greiningar og áætlunargerð einstakra verkfna s.s. frum- og áhættumat verkefna og valkostagreiningar.

Þróun eigna og aðstöðu

Sviðið sér um stýringu verkefna FSR á stigi frumathugunar og frumhönnunar sbr. skilgreiningu laga um skipan opinberra framkvæmda. Þá sinnir sviðið húsnæðisöflun fyrir ríkisaðila og gerð leigusamninga í umboði FJR. Sviðið stýrir jafnframt mótun, miðlun og innleiðingu nýjunga tengt vinnuumhverfi á vegum hins opinbera. Þá hefur sviðið yfirumsjón með skilgreiningu og eftirfylgni umhverfisviðmiða og vistvænna áherslna í verkefnum FSR.

Verkhönnun og framkvæmdir

Sviðið sér um utanumhald og stýringu verkefna FSR á sviði verkhönnunar og verklegra framkvæmda sbr. skilgreiningu laga um skipan opinberra framkvæmda. Sviðið sinnir einnig eftirfylgni leigusamninga á stigi framkvæmda eða endurbóta húsnæðis. Sviðið sér um útboð framkvæmda og stýrir innleiðingu BIM í verkefnum FSR. Þá hefur sviðið frumkvæði að þróun og innleiðingu viðmiða og innkaupaaðferða er stuðlað geta að heilbrigðri þróun verktakamarkaðar og aukinni samkeppni.

Rekstrarsvið

Rekstrarsvið sér um rekstrartengd mál FSR. Helstu verkefni sviðsins eru bókhaldsumsjón, fjármálaumsjón, reikningagerð, áætlanagerð, uppgjör, innkaup á rekstrarvörum, ýmiss konar þjónusta og stuðningur við verkefnastjóra FSR, upplýsingagjöf til viðskiptavina, greiningarvinna, skjalagerð, skjalavarsla, móttaka viðskiptavina og símavarsla.

Skrifstofa forstjóra

Skrifstofa forstjóra annast sameiginleg málefni sviða FSR s.s. umbætur, stafræna þróun, nýsköpun og stefnumótun. Skrifstofan stýrir samskipta- og fræðslumálum FSR og veitir lögfræðilega ráðgjöf. Skrifstofan vinnur einnig sjálfstætt að tilteknum verkefnum eða málaflokkum í samvinnu við forstjóra, framkvæmdastjórn eða sviðsstjóra.

Framkvæmdastjórn

Framkvæmdastjórn skipa forstjóri og sviðsstjórar. Hlutverk framkvæmdastjórnar er að stýra daglegum rekstri FSR, móta og innleiða stefnu í málefnum stofnunarinnar og fylgja eftir mælingum tengdum innleiðingu stefnu. Fjallað er um mikilvægar ákvarðanir er varða þjónustu og rekstur stofnunar á fundum framkvæmdastjórnar.

Gæðaráð

Gæðaráð er ábyrgt fyrir þróun og viðhaldi gæðastjórnunarkerfis FSR í samræmi við kröfur ISO 9001. Gæðaráð hefur yfirumsjón með rekstri gæðastjórnunarhandbókar FSR og samþykkir öll skjöl sem er stýrt innan gæðastjórnunarkerfis FSR. Í gæðaráði sitja gæðastjóri, forstjóri og sviðsstjórar.