Verkleg framkvæmd

Verklagsregla um tilhögun verklegrar framkvæmdar við opinberar framkvæmdir

Verkleg framkvæmd er þriðji áfangi opinberrar framkvæmdar. Þessi áfangi er hin eiginlega bygging eða smíði mannvirkis og þar fellur til megnið af kostnaði. Verkleg framkvæmd inniheldur eftir atvikum eftirtalda fimm meginþætti:

  • 3.1 Undirbúning
  • 3.2 Útboð
  • 3.3 Framkvæmd
  • 3.4 Eftirlit
  • 3.5 Afhendingu

3.1 Undirbúningur

3.1.1. Samningur milli aðila

Framkvæmdasýsla ríkisins stýrir verklegri framkvæmd og ber á henni ábyrgð. Hún ber jafnframt ábyrgð á framkvæmdaeftirliti á verktímanum.

3.1.2. Verkefni Framkvæmdasýslu ríkisins

Hlutaðeigandi ráðuneyti og Framkvæmdasýsla ríkisins skulu gera með sér skriflegan samning um verkið. Í samningi þessum skal meðal annars kveða á um skipulag, boðleiðir, samskipti, upplýsingagjöf og aðrar skyldur samningsaðila.

Framkvæmdasýsla ríkisins sér um útboð, annast gerð samnings við verktaka, ræður eftirlitsaðila og ber ábyrgð á störfum hans og tekur ákvarðanir um verkið innan ramma samnings milli verktaka og hlutaðeigandi ráðuneytis og samnings Framkvæmdasýslu ríkisins við ráðuneytið.

Framkvæmdasýsla ríkisins kallar til sérfræðiráðgjafa um tæknileg og lögfræðileg málefni eftir þörfum, veitir viðtöku hugsanlegum kærum og annast bókhald verkefnis og fjárreiður. Hún sér til þess að faglega sé unnið að öllum þáttum verklegrar framkvæmdar og að hún sé innan þess fjárhagsramma sem markaður hefur verið á fyrri stigum.

3.1.3. Verkefnisstjórn

Framkvæmdasýsla ríkisins sér um að hlutaðeigandi ráðuneyti berist reglulega 
ítarlegar upplýsingar á samræmdu formi um framvindu verksins og fjárhagsstöðu þess. Í þessum upplýsingum skal gera skýra grein fyrir stöðu verks miðað við áætlanir og fjárhag, þar með talið áætlun um fyrirsjáanlegan heildarkostnað, ásamt því að meta horfur á því hvort verkið haldist innan áætlunar við verklok.

3.2 Útboð

3.2.1. Útboð

Framkvæmdasýsla ríkisins felur sérstökum verkefnastjóra að annast stjórn verkefnis. Hann vinnur að því í samræmi við fyrirmæli laga og reglna um framkvæmda- og byggingarmál, samninga við hlutaðeigandi ráðuneyti og fyrirliggjandi áætlanir.

3.2.2. Val á verktaka og samningsgerð

Bjóða ber út opinbera framkvæmd fari fjárhæð hennar yfir 49 m.kr., auk virðisaukaskatts, samanber lög um opinber innkaup nr. 120/2016. Ráðuneyti hefur frumkvæði að útboði framkvæmda en Framkvæmdasýsla ríkisins er umsjónaraðili útboðs. Útboð fara fram á vegum Ríkiskaupa sem sjá um að farið sé að lögum og reglum sem um þau gilda.

3.3 Framkvæmd

3.3.1. Verkleg framkvæmd

Á grundvelli niðurstöðu útboðs gerir Framkvæmdasýsla ríkisins tillögu um val á verktaka. Hlutaðeigandi ráðuneyti velur verktakann og undirritar við hann verksamning gerðan á þeim grunni sem mælt er fyrir um í útboðsgögnum um gæði framkvæmdar, umfang hennar og skil, ásamt öðrum skyldum verktaka.

3.3.2. Breytingar á verktíma

Markmið við verklega framkvæmd er að verkkaupi fái í hendur á umsömdum tíma, innan ramma kostnaðaráætlunar og af tilskildum gæðum, það mannvirki sem útboðsgögn lýsa. Stefnt er að því að áskildum gæðum sé náð meðal annars með kröfum um gæðakerfi hjá verktökum.

3.4 Eftirlit

3.4.1. Ráðning eftirlitsaðila

Breytingar á verklegri framkvæmd á framkvæmdatíma skulu ekki eiga sér stað nema brýna nauðsyn beri til. Slíkar breytingar skulu einungis gerðar samkvæmt ákvörðun hlutaðeigandi ráðuneytis og skulu fara eftir þeirri boðleið sem skilgreind var við upphaf framkvæmdar og tilgreind er í samningi ráðuneytis og Framkvæmdasýslu ríkisins.

3.4.2. Hlutverk eftirlitsaðila

Framkvæmdasýsla ríkisins annast og ber ábyrgð á eftirliti með verklegri framkvæmd. Stofnuninni er heimilt að ráða eftirlitsaðila að verkefninu og gera við hann skriflegan samning sem byggir á útboðsgögnum.

Markmið eftirlits er að tryggja að verkkaupi fái í hendur á umsömdum tíma, innan ramma kostnaðaráætlunar og af tilskildum gæðum, það mannvirki sem útboðsgögn lýsa. Stefnt er að því að tryggja gæði eftirlits meðal annars með kröfum um gæðakerfi hjá eftirlitsaðilum.

Hlutverk eftirlitsaðila er tæknilegt eftirlit við verklega framkvæmd og almenn hagsmunagæsla fyrir verkkaupa. Hann sér til þess að verktaki uppfylli skyldur samkvæmt verksamningi og útboðsgögnum ásamt því að fylgjast með því að mannvirkið sé af tilskildum gæðum. Hann samþykkir greiðslur til verktaka í samræmi við verkframvindu, hefur umsjón með þeim breytingum á framkvæmdinni sem verkkaupi óskar eftir eða samþykkir og sér til þess að slíkar breytingar fái staðfestingu verkefnastjóra og hönnunargögn séu afhent verktaka. Hann annast úttektir verkþátta, verkáfanga og verksins alls í verklok. Hann ritar framvinduskýrslur mánaðarlega og verklokaskýrslu við lok framkvæmdar.

3.5 Afhending

3.5.1. Verklok og afhending

Framkvæmdasýsla ríkisins setur fram ítarlegar leiðbeiningar fyrir eftirlitsaðila sem eru hluti samninga við eftirlitsaðila.

3.5.2. Ábyrgðartími

Fyrir verklok afhendir verktaki gögn um framkvæmdina í samræmi við kröfur útboðsgagna, svo sem teikningar, rekstrarleiðbeiningar og handbækur. Eftirlitsaðili undirbýr uppgjör við verktaka og sér um lokaúttekt en Framkvæmdasýsla ríkisins gengur frá fjárhagslegu og formlegu uppgjöri. Að því loknu afhendir verktaki verkkaupa mannvirkið, en verkkaupi kemur rekstri þess í þær skorður sem við á hvað varðar umsjón, gæslu, þrif, orkukaup, tryggingar og viðhald.

Ábyrgðartími er eitt ár frá lokaúttekt. Verði notandi eða verkkaupi varir við einhverja galla á framkvæmd skulu þeir koma þeirri vitneskju til Framkvæmdasýslu ríkisins sem sér um að verktaki lagfæri slíka galla. Við lok ábyrgðartíma annast eftirlitsaðili ábyrgðarúttekt og framkvæmdatrygging er felld niður.