Ferli opinberra framkvæmda

FSR er þjónustustofnun við aðra opinbera aðila. Stofnunin metur þörf á húsnæði, skoðar valkosti, gerir tillögur og áætlanir. Að lokum stendur FSR að framkvæmdum, hvort sem það er endurgerð fyrirliggjandi húsnæðis, leiga á húsnæði, uppbygging frá grunni eða blanda af þessu öllu. 

Markmið FSR er að skapa ríkisaðilum hagkvæmt, en vandað umhverfi sem hámarkar getu þeirra til að veita borgurunum þjónustu. Verkefni FSR eru eðlisólík, af öllum stærðum og gerðum. Þegar þessi texti var skrifaður voru í gangi yfir 100 verkefni undir stjórn FSR. Áætlaður heildarkostnaður verkefnanna var þá 116 króna. Eðli málsins samkvæmt verða ekki öll þessara verkefna að veruleika. Þar getur komið til skortur á vilja eða fjárveitingum eða ytri aðstæður á borð við ríkisstjórnarskipti, efnahagslægð eða breytingu á skipulagi. Þá gerist það auðvitað við athugun komi í ljós að ekki sé þörf á framkvæmdinni.

Öll eiga þó verkefnin sameiginlegt að þau eru unnin samkvæmt lögum nr. 84/2001, um skipan opinberra framkvæmda og fylgja vel skilgreindu ferli sem sjá má mynd af hér að neðan.

Ferli opinberra framkvæmda er bundið í lög nr. 84/2001 um skipan opinberra framkvæmda og reglugerð nr. 71/2001 um skipulag opinberra framkvæmda. Markmið ferlisins er að vel sé farið með skattfé, að framkvæmdir séu hagkvæmar, nauðsynlegar, umhverfisvænar og skili samfélaginu árangri.

Ferli opinberra framkvæmda

Fyrsti hluti ferlisins er frumathugun en hún skiptist í tvo hluta. Fyrst er unnin forathugun þar sem þörf fyrir aðstöðu er greind og skoðað hvaða valkostir eru færir til að mæta fyrirliggjandi þörf. Inn í ferlið er dæmigert safnað sjónarmiðum stjórnenda og fagráðuneytis Og ýmsar stærðir dregnar inn í matið. Til dæmis má nefna forathugun á hjúkrunarheimili, þar sem fjöldi rýma er áætlaður út frá lýðfræðilegum upplýsingum, eða rýmisþörf skrifstofuhúsnæðis stofnunar, sem lýtur ákveðnum viðmiðum, gefnum út af fjármálaráðuneyti. Þegar mat á þörf liggur fyrir eru greindir þeir valkostir sem koma til greina sem lausn á þörf, en þeir geta m.a. falist í leigu á húsnæði, breytingu á húsnæði eða nýframkvæmd. Valkostirnir eru því næst metnir með tilliti til kostnaðar, gæðaþátta og áhættu og dregið er fram hvaða valkostur þyki vænlegastur til frekari útfærslu. Þegar tillaga FSR að valkosti liggur fyrir tekur fagráðuneyti formlega afstöðu til frekari vinnslu málsins. Að fenginni staðfestingu á völdum valkosti er unnin frumáætlun en þar er valinn valkostur metinn nánar og settar fram tillögur að útboðsstefnu verkefnisins. Að því loknu er frumathugun gefin út og að fagráðuneyti sendir hana til umfjöllunar FJR og Samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir (SOF). Í nefndinni eiga sæti: Formaður fjárlaganefndar Alþingis eða sérstaklega tilnefndur fulltrúi nefndarinnar, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins og ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytis, sem er formaður nefndarinnar. SOF metur gögn FSR og ráðleggur FJR um hvort verkefnið hljóti heimild til frekari vinnslu í ferli áætlaunargerðar sem er annar hluti ferlis opinberrar framkvæmdar.

Sé niðurstaða FJR jákvæð tekur við frumhönnun verkefnisins. Ráðgjafar verkefnisins eru valdir, mannvirkið er nánar skilgreint og kostnaðaráætlun gerð. Þá er gögn frumhönnunar rýnd af ráðgjöfum og verkkaupa og verkefnið sett í verkhönnun. Snýst hún um að gerð teikninga, verklýsinga, kostnaðaráætlana og annarra þeirra gagna sem nauðsynleg eru til útboðs verklegrar framkvæmdar. Gögn þeirrar áætlunar eru að því loknu rýnd og veitir FSR umsögn um stöðu gagna. Verkið kemur þá aftur til kasta SOF og FJR, sem ákvarðar um hvort heimild verði veitt til útboðs verklegrar framkvæmdar

Hafi niðurstaða SOF verið jákvæð er verkefnið sett í útboð en Ríkiskaup hafa að jafnaði umsjón með útboðum FSR. Að tilboðum fengnum yfirfer FSR tilboðin og gerir tillögu um töku tilboðs en endanleg ákvörðun um töku þeirra er í höndum verkkaupa, sem í flestum tilvikum eru tiltekin fagráðuneyti. Sé tilboði tekið hefjast framkvæmdir og eftirlit FSR með verkefninu. Að framkvæmdum loknum tekur við afhending verkefnisins til þeirra aðila sem fara munu með rekstur húsnæðisins, sem oftast nær er ríkisstofnun eða ráðuneyti. Þá fara ríkiseignir með rekstur húsnæðis, þegar það á við.

Að verkefni loknu er gefið út skilamat, skilagrein eða skilablað, eftir umfangi verkefnisins, þar sem helstu vörðum verkefnisins er lýst og helstu tölur úr áætlunum og raunniðurstöður eru tíundaðar.

Ferli opinberra framkvæmda er í stöðugri skoðun. Sérstök áhersla er um þessar mundir á að styrkja fyrri hluta ferlisins, í þeim tilgangi að framkvæmdir sem stofnunin ber ábyrgð á séu hagkvæmari, umhverfisvænni, tímanlegri og betur til þess fallnar að þjónusta ríkisins sé skilvirk og vönduð. 

Ítarlegri umfjöllun um ferli opinberra framkvæmda má finna á öðrum stað hér á vefnum.