Hlutverk FSR

Hlutverk:

Vef-umfsr

Hlutverk Framkvæmdasýslu ríkisins er að vera leiðandi afl á sviði opinberra framkvæmda með það aðmarkmiði að bæta verklag og auka skilvirkni, hagkvæmni og gæði við framkvæmdir ríkisins. Framkvæmdasýslan heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Engin stjórn er yfir stofnuninni og er forstjóri hennar því ábyrgur gagnvart fjármála- og efnahagsráðherra. Framkvæmdasýslan fer með stjórn ákveðins hluta verklegra framkvæmda af hálfu ríkisins og veitir ráðuneytum og ríkisstofnunum ráðgjöf um byggingatæknileg málefni og undirbúning framkvæmda.

Tilgangur:

Tilgangurinn með rekstri Framkvæmdasýslu ríkisins er að byggja upp á einum stað innan ríkisgeirans sérþekkingu á verklegum framkvæmdum þar sem mikilvægt er að ríkið sem verkkaupi búi yfir slíkri þekkingu. Framkvæmdasýsla ríkisins skal einnig hafa frumkvæði að verkefnum er lúta að samræmingu gagna, þróun á sviði verklegra framkvæmda og notkun á upplýsingatækni á sínu sviði. 

Stefna:

Framkvæmdasýsla ríkisins mótar árlega stefnu fyrir starfsemi sína líkt og kveðið er á um í lögum um opinber fjármál nr. 123/2015. Í henni er greint frá markmiðum og almennum áherslum til næstu þriggja ára og hvernig þeim verði náð. Í stefnunni er gerð grein fyrir mælikvörðum og viðmiðum sem lögð eru til grundvallar mati á árangri starfsemi FSR. Stefna FSR er staðfest af fjármála- og efnahagsráðuneyti. 

Stefnuþríhyrningur FSR

Saga FSR:

Framkvæmdasýsla ríkisins var upphaflega deild í Innkaupastofnun ríkisins (nú Ríkiskaup). Nefndist hún Framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins og varð til með setningu laga um skipan opinberra framkvæmda nr. 63/1970. 

Lögin frá 1970 voru síðan felld úr gildi með setningu laga nr. 84/2001, lög um skipan opinberra framkvæmda, og varð Framkvæmdasýsla ríkisins til sem sjálfstæð stofnun samkvæmt þeim lögum.