Gæðastjórnun FSR
Framkvæmdasýsla ríkisins vinnur samkvæmt vottuðu gæðastjórnunarkerfi sem byggir á alþjóðlega gæðastjórnunarstaðlinum ISO 9001.
Árið 1999 var ákveðið að taka upp gæðastjórnun með það að markmiði að auðvelda starfsfólki stofnunarinnar að uppfylla þarfir og væntingar viðskiptavina á virkan og hagkvæman hátt. Utanaðkomandi ráðgjafar komu að skipulagningu og uppsetningu gæðastjórnunarkerfisins ásamt því að starfsmenn tóku þátt í almennri greiningarvinnu og í framhaldi af því endurskoðun og uppbyggingu á verkferlum.
Árið 2003 var gæðakerfið tekið í notkun með formlegum hætti þar sem notast var við „Gæðabrunn" frá Hugvit ehf. Árið 2006 var „Rekstrarhandbók" frá Opnum kerfum ehf. tekið í notkun.
Árið 2004 var gerður samningur við Vottun hf. um vottun gæðastjórnunarkerfis Framkvæmdasýslu ríkisins. Á árunum 2011 og 2012 var lögð mikil vinna í að bæta verklagsreglur, samhæfa vistun gagna og koma á verklagi í fullu samræmi við gæða- og stjórnunarstaðalinn.
Gæðastjórnunarkerfi Framkvæmdasýslu ríkisins var vottað 30. október 2012 í samræmi við kröfur í stjórnunarstaðlinum ÍST ISO 9001:2008, Gæðastjórnunarkerfi – kröfur. Því hefur síðan verið endurbætt miðað við nýja útgáfu staðalsins ÍST ISO 9001:2015.
Framkvæmdasýsla ríkisins vinnur statt og stöðugt að því að viðhalda kerfinu með stöðugum endurbótum ásamt því sem reglulegar innri og ytri úttektir eiga sér stað.
Í Rekstrarhandbók er að finna þau stefnuskjöl, skiplagsskjöl, verklagsreglur, leiðbeiningar og stöðluð form sem starfsmenn vinna eftir. Rekstrarhandbókinni er skipt upp í tvö svið:
- Rekstur FSR
- Framkvæmdir
Gæðastjórnunarstefna FSR:
- Auka stöðugt gæði í starfsemi sinni til þess að veita viðskiptavinum sínum sem besta þjónustu.
- Auka skilvirkni, hagkvæmni og gæði í opinberum framkvæmdum.
- Hafa ferli opinberra framkvæmda stöðugt í endurskoðun.
- Umhverfi opinberra framkvæmda verði betur skilgreint og að unnið verði eftir staðfestum skipuritum þar sem verk- og ábyrgðarsvið allra aðila er skýrt til hlítar.
- Ráða til sín hæft starfsfólk og stuðla að símenntun þess. Leggja metnað sinn í að skapa góða vinnuaðstöðu og aðbúnað starfsmanna til þess að auka gæði þjónustu stofnunarinnar og ánægju starfsmanna.
- Hvetja til innleiðingar gæðastjórnunarkerfa hjá ráðgjöfum og verktökum sem eru viðskiptavinir stofnunarinnar.
- Stuðla að framförum íslensks ráðgjafa- og verktakamarkaðar.
- Vinna samkvæmt vottuðu gæðastjórnunarkerfi sem byggir á gildandi útgáfu gæðastjórnunarstaðalsins ISO 9001 (ISO = International Standardization Organization). Kerfið skal vera einfalt, skilvirkt og í sífelldri þróun.
- Vakta stöðugt upplýsingar um viðhorf viðskiptavina vegna gæða afhentrar vöru og um að kröfur séu uppfylltar.
- Halda lið um árangur með ánægju viðskiptavina í skorkorti.