Innlent samstarf

FSR hefur samvinnu og samráð við aðar ríkisstofnanir, sveitarfélög og ýmis félaga- og hagsmunasamtök. Hér fyrir neðan er hægt að nálgast upplýsingar um innlent samstarf sem FSR tengist, bæði formlega og óformlega. 

Framkvæmdasýsla ríkisins (FSR) tekur þátt í ýmiss konar samstarfi, formlegu og óformlegu, við stofnanir og hagsmunasamtök bæði innanlands og erlendis.

Íslenski byggingavettvangurinn

Byggingarvettvangurinn er samstarfsvettvangur Samtaka iðnaðarins, Nýsköpunarmiðstöðvar, Mannvirkjastofnunar, Íbúðalánasjóðs og Framkvæmdasýslu ríkisins, FSR.  Tilgangur vettvangsins er að efla samkeppnishæfni innan byggingageirans, auka framleiðni og nýsköpun, stuðla að faglegri mannvirkjagerð og skila virðisauka fyrir þá sem þar starfa. FSR gekk til liðs við Byggingavettvanginn árið 2019.

BIM og stafræn tækni í mannvirkjagerð

BIM Ísland var stofnað í desember 2008 af hópi opinberra verkkaupa á Íslandi, þar sem FSR var í forsvari. Í janúar sama ár skrifaði Óskar Valdimarsson, þáverandi forstjóri FSR, undir alþjóðlega yfirlýsingu um áform um stuðning við BIM með opnum staðli. 

Markmið BIM Íslands hópsins er að styðja við innleiðingu BIM á Íslandi. Þar hefur  FSR lagt verulega af mörkum. Á árunum 2009–2011 starfaði Haraldur Ingvarsson sem framkvæmdastjóri BIM Ísland, en eftir það tók FSR við verkefninu. Í dag situr Guðni Guðnason, BIM sérfræðingur hjá FSR, í stjórn félagsins. Ingibjörg Birna Kjartansdóttir er stjórnarformaður BIM Ísland. 

Endurmenntun Háskóla Íslands

Í lok árs 2013 skrifaði FSR undir samstarfssamning við Endurmenntun Háskóla Íslands, þar sem FSR setur á fót námskeið og/eða námskeiðslínu um BIM og hvernig aðferðafræðinni er beitt við hönnun, verklegar framkvæmdir og rekstur mannvirkja. 

Ásamt þessu mun FSR halda morgunfundi um BIM tengd málefni, þar sem þátttakendum gefst kostur á að taka þátt í umræðum. Aðgangur er ókeypis á morgunfundi.

Grænni byggð, Green Building Council Iceland

Framkvæmdasýslan er í fararbroddi við að innleiða vistvænar vinnuaðferðir í byggingariðnaði. Mörg ríki heims hafa skuldbundið sig til að stuðla að sjálfbærri þróun, þar á meðal Ísland. FSR er aðili að Grænni byggð, Green Building Council Iceland (áður Vistbyggðarráð) og tók þátt í undirbúningi og stofnun samtakanna í febrúar 2010. Með aðildinni styrkir FSR fræðslu, umræðu og hvatningu um sjálfbæra þróun byggðar.

Grænni byggð er vettvangur bygginga- og skipulagsgeirans á sviði vistvænnar þróunar og starfar að fyrirmynd alþjóðlegu samtakanna Green Building Council. Hlutverk Grænni byggðar er að veita hvatningu og fræðslu um sjálfbæra þróun byggðar með það að markmiði að umhverfisáhrif frá mannvirkjagerð, -rekstri og niðurrifi séu lágmörkuð.

Lagnafélag Íslands

FSR hefur um árabil verið aðili að Lagnafélagi Íslands (LAFÍ) en áherslur félagsins hafa verið upplýsingarit, ráðstefnur og fræðslufundir. 

Samtök opinberra verkkaupa

Samtök opinberra verkkaupa (SOV) voru stofnuð 2006 og var FSR var einn af stofnaðilum. Samtökin eru samstarfsvettvangur opinberra aðila á Íslandi sem stunda kaup á verkum og þjónustu þeim tengdum. Í samtökunum geta ríkisstofnanir og sveitarfélög átt aðild. Stofnaðilar SOV voru Framkvæmdasýsla ríkisins, Framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar, Siglingastofnun og Vegagerðin. 

 Áhersluatriði og tilgangur Samtaka opinberra verkkaupa eru einkum eftirfarandi:

  • Vera samtök opinberra aðila á Íslandi sem stunda kaup á verkum og þjónustu þeim tengdum. 
  • Beita sér fyrir aukinni gæðavitund við mannvirkjagerð á Íslandi og innleiðingu gæðastjórnunar við verklegar framkvæmdir.
  • Leggja áherslu á öryggis-, heilbrigðis- og umhverfismál sem tengjast verklegum framkvæmdum. 
  • Vera leiðandi í samræmingu og þróun aðferða og gagna sem tengjast útboðum á verklegum framkvæmdum og þjónustu þeim tengdum. 
  • Taka þátt í innlendu og alþjóðlegu samstarfi er snýr að stöðlun, hagræðingu og þróun í mannvirkjagerð. 
  • Stuðla að ráðstefnum á sviði mannvirkjagerðar sem taka á gæðavitund, öryggi, heilbrigði, umhverfi og samræmingu útboðsgagna í verklegum framkvæmdum. 

 Staðlaráð Íslands

Staðlaráð Íslands og FSR hafa lengi átt samstarf, þar sem fyrrverandi forstjóri FSR, Óskar Valdimarsson, var fulltrúi opinberra framkvæmda og annaðist undirbúning að útgáfu og endurskoðun þeirra staðla sem tengjast framkvæmdum. Einn mikilvægasti staðallinn varðandi opinberar framkvæmdir er ÍST 30 Almennir útboðs- og samningsskilmálar um verkframkvæmdir og tók 6. útgáfan gildi 8. janúar 2012.

Steinsteypufélag Íslands

FSR hefur verið í samstarfi við Steinsteypufélag Íslands þar sem FSR hefur verið með erindi á fundum félagsins. Árlega heldur félagið upp á Steinsteypudaginn ásamt því að veita Steinsteypuverðlaunin. 

Stjórnvísi

FSR er félagi í Stjórnvísi, félagi um framsækna stjórnun, en það hefur starfað að miðlun þekkingar og árangursríkra leiða í stjórnun. Mikil gróska er í starfseminni og er félagið stærsta stjórnunarfélagið á Íslandi, með virka félagsmenn og öflugt tengslanet. Starf faghópa er kjarninn í starfi Stjórnvísi, en innra starf FSR byggir einnig á sama grunni.

Verkefnastjórnunarfélag Íslands

Verkefnastjórnunarfélag Íslands (VSF) vinnur að þróun og eflingu verkefnastjórnunar á Íslandi. FSR tekur virkan þátt í starfsemi félagsins með þátttöku starfsmanna í ráðstefnum og í stjórn. Félagið er aðili að Alþjóðasambandi verkefnastjórnunarfélaga (IPMA) og Samstarfshóp verkefnastjórnunarfélaga á Norðurlöndunum, Nordnet.