Gæðastjórnun í mannvirkjagerð

Framkvæmdasýsla ríkisins leitast við að styðja við gæðastjórnun við opinberar framkvæmdir, til dæmis með því að samræma kröfur til ráðgjafa og verktaka af opinberum verkefnum. Frá árinu 2001 hefur verið unnið að því jafnt og þétt að auka kröfur til gæðastjórnunar í opinberum framkvæmdum, hvort heldur sem er hjá ráðgjöfum eða verktökum. 

Opinberir verkkaupar og Samtök iðnaðarins hófu óformlegt samstarf árið 2003 með átaki í að samræma kröfur opinberra verkkaupa til gæðastjórnunar í opinberum framkvæmdum. Í framhaldi af þessu átaki var sett á laggirnar námskeið um gæðastjórnun í byggingariðnaði á vegum Samtaka iðnaðarins. Námskeiðið leiddi af sér aukinn skilning á nauðsyn gæðastjórnunar í greininni. 

Í tímaritinu Verktækni (2006) kom út greinin „Gæðastjórnun við mannvirkjagerð" eftir Óskar Valdimarsson, fyrrverandi forstjóra Framkvæmdasýslu ríkisins, þar sem fjallað er um nauðsyn gæðastjórnunar við undirbúning, hönnun og byggingu mannvirkja á Íslandi ásamt því að hugtakið gæðastjórnun er útskýrt. 

Gæðastjórnun byggist á því að uppfylla þarfir viðskiptavinarins innan gefins tíma og kostnaðar. Í upphafi eru skilgreindir vinnuferlar og vaktað að unnið sé eftir þeim, hvort sem um ræðir þjónustu (hönnun) eða vöru (mannvirki).