Erlent samstarf

FSR hefur samvinnu og samráð við systurstofnanir sínar á Norðurlöndunum, sem og annað erlent samstarf við ríkisstofnanir og ýmis erlend félaga- og hagsmunasamtök. Hér fyrir neðan er hægt að nálgast upplýsingar um innlent samstarf sem FSR tengist, bæði formlega og óformlega.

Framkvæmdasýsla ríkisins (FSR) tekur þátt í ýmiss konar samstarfi, formlegu og óformlegu, við stofnanir og hagsmunasamtök bæði innanlands og erlendis. 

Erlent samstarf á sviði verkefnastjórnunar

Framkvæmdasýslan hefur verið virkur þátttakandi í viðburðum Alþjóðasambands verkefnastjórnunarfélaga (IPMA) og Samstarfs norrænna verkefnastjórnunarfélaga (NORDNET).

Norrænt samstarf um ríkisbyggingar (NKS)

Nordisk Kontakt om Statsbygninger (NKS) eða norrænt samstarf um ríkisbyggingar er formlegt samstarf FSR við systurstofnanir stofnunarinnar á Norðurlöndunum. Annað hvert ár eru haldnir stórir fundir, en þess á milli hittast eingöngu forstjórar stofnananna. Á fundunum eru málefni sem tengjast skipulagi, skráningu og rekstri eigna ríkisins rædd, fjallað um samvinnu milli ríkisins og einkaaðila, val á ráðgjöfum, samskipti við fjölmiðla, upplýsingalíkön mannvirkja, vistvænar vottanir og önnur tengd málefni.  

Nordic Built Cities

Nordic Built Cities (áður Nordic Built) er norrænt samvinnuverkefni sem FSR tekur þátt í. Markmið verkefnisins er að hvetja til og þróa samkeppnishæfar lausnir í vistvænni mannvirkjagerð ásamt því að vera leiðandi í nýsköpun, grænum hagvexti og velferð. Vistvæn mannvirkjagerð hefur verið að ryðja sér til rúms um allan heim og er markmið Nordic Built Cities að sameina byggingariðnaðinn og nýta þá sérþekkingu sem hann býr yfir til að mæta aukinni eftirspurn.

Kjarni verkefnisins var ákvarðaður með sáttmála árið 2011, en verkefnið er fjármagnað af Norræna ráðherraráðinu ásamt Nordic Innovation. Þann 8. ágúst 2012 undirrituðu aðilar Nordic Built sáttmála í Kaupmannahöfn þar sem þeir skuldbundu sig til að fylgja meginreglum í starfi og standa að því að þróa samkeppnishæfar lausnir í sjálfbærri og vistvænni mannvirkjagerð.

Árið 2015 var hleypt af stokkunum Nordic Built Cities samkeppni sem náði til sex borgarsvæða á Norðurlöndunum en úrslit voru kynnt í júní 2016. Á Íslandi varð fyrir valinu svæði á Kársnesi í Kópavogi. Sigurtillagan í samkeppni um skipulag á Kársnesi nefnist Spot on Kársnes. Meginmarkmið keppninnar var að efla nýsköpun og samkeppnishæfni Norðurlandanna á sviði sjálfbærni í byggðu umhverfi.

PuRE-net (The Public Real Estate Network) 

Framkvæmdasýslan er aðili að PuRE-net sem eru evrópsk samtök systurstofnana FSR/Ríkiseigna og ráðuneyta þar sem skipst er á skoðunum um fasteignamál hjá hinu opinbera og tengd efni. Samtökin halda árlega vinnustofur um málefni tengd opinberum vinnustöðum þar sem tækifæri gefst til að virkja og efla tengslanet þeirra á milli. Framkvæmdasýslan tekur virkan þátt í þessu starfi.

US General Service Administration - Office for Real Properties (GSA)

Ófromlegt samstarf hefur verið á milli FSR og US General Service Administration (GSA).