Verkefni

Þingvellir, Hakið - stækkun gestastofu

  • Verkkaupi: Stofnanir
  • Staða: Í verklegri framkvæmd
  • Verkefnisnúmer: 601 2021
  • Verkefnastjóri: Gíslína Guðmundsdóttir, frumathugun og áætlunargerð. Gunnar Sigurðsson, verkleg framkvæmd
  • Stærð mannvirkis: 1.277 fermetrar með núverandi byggingu
  • Tímaáætlun: Áætluð verklok eru júní 2018
  • Gestastofa Hakið
  • Þjónustumiðstöð Hakið

Um verkefnið

Framkvæmdir við byggingu gestastofu Þjóðgarðsins  á Þingvöllum eru hafnar.

Verkkaupi er Þjóðgarðurinn á Þingvöllum og forsætisráðuneytið.

Vegna síaukins straums ferðamanna að Þingvöllum var ákveðið að ráðast  í stækkun núverandi Fræðslumiðstöðvar á Hakinu sem reist var árið 2002.  Heildarstærð gestastofunnar með núverandi byggingu verður um 1.277 m². Innra skipulagi verður breytt og samræmt með það í huga að inn í húsið komi hágæða sýning. 

Um einstakt umhverfi og sögustað er að ræða og þarf að vanda mjög vel til allra bygginga sem reistar eru á svæðinu og halda landraski í lágmarki. Til að tryggja sem bestan árangur með tilliti til umhverfisins er stefnt að því að byggingin hljóti vottun samkvæmt umhverfisvottunarkerfinu BREEAM og er hönnuðum og verktaka gert að tryggja það í vinnu sinni.

Undirbúningur að sýningarhaldi hófst 2016 og hafði verið áætlað 40 m.kr. til undirbúnings þess. Samið var við Gagarín ehf. um hugmyndahönnun og voru hugmyndir þeirra samþykktar af Þingvallanefnd undir vinnuheitinu „Þingvellir, hjarta lands og þjóðar“. Fullnaðarhönnun á samþykktri hugmynd að sýningunni verður boðin út á árinu 2017 og áætlað er að sýningin opni um leið og gestastofan er fullbyggð. 

Framkvæmdasýsla ríkisins hefur umsjón og eftirlit með framkvæmdinni. Verkefnastjóri er Gunnar Sigurðsson, áður Guðbjartur Á. Ólafsson.

Frumathugun

Frumathugun er fyrsti áfangi í ferli opinberra framkvæmda. Frumathugun var gefin út í desember 2013 að undangenginni þarfagreiningu sem unnin var í samvinnu við verkkaupa og Glámu · Kím arkitekta. Niðurstaða frumathugunar var að haldið yrði áfram með nauðsynlegar og aðkallandi úrbætur við Hakið í Þjóðgarðinum á Þingvöllum til að bæta aðkomu ferðamanna. 

Áætlunargerð

Nánari upplýsingar veitir verkefnastjóri.

Verkleg framkvæmd

Tilboð í verkið voru opnuð í apríl 2016 og var tilboð Þarfaþings ehf. lægst. Lagt var til að gengið væri til samninga við fyrirtækið þrátt fyrir að tilboðið væri 20% yfir kostnaðaráætlun og fékkst sú heimild í október 2016. Gert er ráð fyrir að framkvæmdin kosti um 470 m.kr.

Vegna tafa á því að gengið væri til samninga var samkomulag um að verkið mundi hefjast formlega í mars 2017 en unnið yrði við jarðvegsskipti eins og kostur væri þangað til. Verktaki lauk við aðstöðuplan og vegslóða að húsgrunni í lok desember 2016. Verktaki lauk við aðstöðuplan og vegslóða að húsgrunni í lok desember 2016. Í lok árs 2017 var búið að steypa upp húsið að mestu og setja upp bæði steypt og létt þök yfir sýningarsali, anddyri og tengibyggingu yfir í eldri gestastofu. Gert er ráð fyrir því að verkinu verði lokið að fullu í byrjun júní 2018.