Alþingisreitur, framkvæmdir 2008-2012 / Alþingi, uppbygging á Alþingsreit


Alþingisreitur, framkvæmdir 2008-2012 / Alþingi, uppbygging á Alþingsreit

 Verkefniskynning

Verkefnisnúmer:  600 1011
Síðast uppfært 11. 4. 2008

Fyrirhugað er að hefja á árinu 2008 undirbúningsframkvæmdir vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á vestanverðum Alþingisreit á næstu árum. Þar eru nú bílastæði en samkvæmt skipulagi verða þar byggingar fyrir starfsemi Alþingis og bílageymslur í kjallara.

Fornleifagröftur var boðinn út í apríl 2008 og er gerð grein fyrir fornleifagreftinum á sérstakri verkefniskynningu. Í áætlun er flutningur og endurbygging húsa, en húsið við Vonarstræti 12 verður flutt á horn Tjarnargötu og Kirkjustrætis og húsið að Kirkjustræti 8, Skjaldbreið, verður endurbætt.

Verkkaupi er Alþingi. Umsjón með verkefninu fyrir Alþingi hefur Framkvæmdasýsla ríkisins.

Um skipulag á Alþingisreit

Í fréttatilkynningu segir eftirfarandi um skipulag á Alþingisreit.

Langt er síðan áformað var að byggja yfir alla starfsemi Alþingis á svokölluðum Alþingisreit sem afmarkast af Kirkjustræti, Vonarstræti, Tjarnargötu og Templarasundi. Nú er stærstur hluti af skrifstofum þingmanna, þingnefnda og hluti starsemi skrifstofunnar í leiguhúsnæði við Austurstræti 6 til 14.

Þegar árið 1985 var efnt til samkeppni um nýbyggingu á reitnum, þar sem gert var ráð fyrir því að rífa öll gömul hús á reitnum, sem þá voru í eigu Alþingis. Þessum áformum var slegið á frest á sínum tíma. Í framhaldinu var deiliskipulag reitsins endurskoðað og í því gert ráð fyrir að endurbyggja tvö hús á reitnum, Kirkjustræti 8 og 10 (Kristjáns- og Blöndahlshús) og veitt heimild til byggingar Skálans. Nýtt deiliskipulag var staðfest árið 1998 og byggingu Skálans var lokið 2002. Hið nýja deiliskipulag þótti þrengja um of að möguleikum Alþingis til að flytja alla starfsemina á Alþingsreit og var fljótlega hafist handa um kanna nánari útfærslu eða endurskoðun á skipulaginu. Þessi vinna hefur því tekið nokkur ár.

Síðastliðið vor var auglýst til umsagnar ný tillaga að endurskoðuðu deiliskipulagi þar sem lagt er til að Vonarstræti 12 verði flutt á horn Tjarnargötu og Kirkjustrætis og Skjaldbreið rifin en framhliðin endurgerð. Bak við húsin og meðfram Tjarnargötu og Vonarstræti er áformað að reisa 7.100 fermetra nýbyggingu að flatarmáli. Verða húsin á reitnum tengd með 300 fermetra glerbrú, í 2. hæð húsanna. Þá verður gerður 1.900 fermetra bílakjallari fyrir 75 bifreiðar. Þessar tillögur miðast við að nægilegt svigrúm skapist til að koma megi allri starfsemi Alþingis fyrir á Alþingisreitnum. Í framhaldinu verður mögulegt að losa leiguhúsnæði við Austurstræti að flatarmáli ríflega 4.000 m2 og selja húseign Alþingis utan reitsins, Þórshamar við Templarasund.

Nokkrar athugasemdir komu fram við auglýsta tillögu. Lutu þær flestar að því að mótmæla niðurrifi Skjaldbreiðar og að um of væri þrengt að Vonarstræti 12 á horni Tjarnargötu og Kirkjustrætis. Hins vegar var meirihluti þeirra sem gerðu athugasemdir sáttir við flutning Vonarstrætis 12.

Eftir nánari skoðun á skipulagstillögunni er það niðurstaða forseta Alþingis, sem er studd af forsætisnefnd Alþingis, að koma megi til móts við framkomnar athugasemdir í veigamiklum atriðum. Þannig mun Alþingi leggja til eftirfarandi meginbreytingar í skipulagstillögunni:

• Að Vonarstræti 12 standi þannig við Kirkjustrætið að meginframhlið þess verði í línu við eldri hús í götunni. Við þessa breytingu fæst heillegri götumynd gömlu húsanna.
• Að Skjaldbreið verði endurbyggð í sem næst upprunalegri mynd. Við þá endurgerð verði einkum hugað að sal á 1. hæð hússins, sem hefur bæði byggingarlegt og sögulegt gildi.

Nýbygging að baki þessum endurgerðu húsum verði lægri næst þeim en áður var áformað, þannig að þau njóti sín sem best.
Fyrrnefndar tillögur hafa verið unnar í samráði við borgarstjóra og skipulagsráð Reykjavíkurborgar og er þess vænst að þær verði afgreiddar formlega af Reykjavíkurborg fljótlega.

Þegar skipulagið hefur verið samþykkt mun verða hafist handa við hönnun nýbyggingarinnar, undirbúning viðgerðar og flutning gömlu húsanna auk fornleifaathugana á byggingarreitnum. Þá verður unnið að frumáætlun um kostnað og framkvæmdir. Á grundvelli þeirra áætlana verður hægt að gera tímaáætlun um framkvæmdir og tryggja fjárveitingar.

Reykjavík, 27. september 2007.

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis


Með fréttatilkynningunni voru lagðir fram eftirfarandi uppdrættir:
Deiliskipulagsuppdráttur, skýringaruppdráttur, deiliskipulag í þrívídd (síðastnefnt skjal í þyngri útgáfu og léttari útgáfu).

Í samræmi við skipulags- og byggingarlög samþykkti borgarstjórn Reykjavíkurborgar, þann 2. október 2007, breytingu á deiliskipulagi Alþingisreits.

Fornleifarannsóknir á Alþingisreit

Vegna fyrirhugaðrar framkvæmda á Alþingisreitnum á næstu árum mun fara fram fornleifagröftur. Fornleifavernd ríkisins hefur veitt ráðgjöf vegna fornleifagraftrarins. Gerð er grein fyrir því verkefni á sérstakri verkefniskynningu.

Vefvottun

Aðgengisvottun Forgangur 1 og 2Aðalvalmynd


Aukaval


Aukaval

Borgartúni 7A - 105 Reykjavík - Sími 569 8900 - Bréfsimi 569 8901


Leit

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi