Skipurit

Skipurit FSRSkýringar með skipuriti FSR

Skipuritið tók gildi 1. apríl 2016.

Framkvæmdasýsla ríkisins er ein af stofnunum fjármála- og efnahagsráðuneytisins og starfar samkvæmt lögum nr. 84/2001 um skipan opinberra framkvæmda og reglugerð nr. 715/2001 um skipulag opinberra framkvæmda. Hlutverk FSR er að vera leiðandi afl á sviði opinberra framkvæmda með það að markmiði að bæta verklag og auka skilvirkni, hagkvæmni og gæði við framkvæmdir ríkisins. Stofnunin þjónustar ráðuneyti og ríkisstofnanir í tengslum við verklegar framkvæmdir og er hún því í eðli sínu þjónustustofnun. Ekki er sérstök stjórn yfir stofnuninni og er forstjóri því ábyrgur gagnvart fjármála- og efnahagsráðherra fyrir rekstri hennar.

Forstjóri

Forstjóri Framkvæmdasýslunnar ber ábyrgð á að rekstur stofnunarinnar sé í samræmi við fjárlög og langtímaáætlun hennar og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Samkvæmt lögum situr forstjóri í samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir.

Gæðaráð

Gæðaráð er ábyrgt fyrir þróun og viðhaldi gæðastjórnunarkerfis FSR í samræmi við kröfur ISO 9001. Gæðaráð hefur yfirumsjón með rekstri gæðastjórnunarhandbókar FSR og samþykkir öll skjöl sem er stýrt innan gæðastjórnunarkerfis FSR. Í gæðaráði sitja gæðastjóri, forstjóri, fjármálastjóri og fulltrúi verkefnastjóra FSR.

Gæðastjóri

Gæðastjóri sér um og ber ábyrgð á Gæðastjórnunarkerfi FSR í samræmi við gæðastjórnunarstefnu stofnunarinnar. Gæðastjóri hefur umsjón með Rekstrarhandbók og ber ábyrgð á að öll gögn sem í henni eru séu réttar útgáfur og hafi verið samþykkt samkvæmt gæðastjórnunarkerfinu. Gæðastjóri sér um að gæðastjórnunarkerfið sé ávallt samkvæmt reglum nýjustu útgáfu staðalsins ISO 9001 og að starfsmenn stofnunarinnar vinni samkvæmt því. Gæðastjóri sér um innri úttektir innan stofnunarinnar og er fulltrúi forstjóra í samskiptum við vottunaraðila. Gæðastjóri situr í Gæðaráði FSR.

Sviðsstjóri rekstrarsviðs

Sviðsstjóri rekstrarsviðs er jafnframt fjármálastjóri stofnunarinnar. Sviðsstjóri rekstrarsviðs hefur umsjón með fjármálum stofnunarinnar og ber ábyrgð gagnvart forstjóra á rekstrarbókhaldi FSR. Sviðsstjóri rekstrarsviðs sér um og ber ábyrgð á verkbókhaldi og tengdri þjónustu við þau verk sem eru í bókhalds- og greiðsluþjónustu hjá FSR. Ábyrgðin á fjármálalegri stýringu verkanna er hins vegar hjá viðkomandi ráðuneyti og/eða stofnun. Sviðsstjóri rekstrarsviðs ber einnig ábyrgð á greiningarvinnu, rekstraráætlun, ársuppgjörum, launavinnslu og samskiptum við Fjársýslu ríkisins.  Sviðsstjóri rekstrarsviðs fer með umsjón með fræðslumálum starfsfólks, skorkorti, gerð ársskýrslu og skilamata og umsjón með verkefnavöktun.
Hann vinnur einnig sjálfstætt að tilteknum verkefnum eða málaflokkum í samvinnu við forstjóra.  Sviðsstjóri rekstrarsviðs situr í Gæðaráði FSR.

Faghópar

Faghópar eru forstjóra til ráðgjafar á viðkomandi fagsviði. Þeir veita einnig aðstoð við gerð mælikvarða fyrir Skorkort FSR á sínu sviði og taka þátt í gerð fréttaefnis um starf þeirra á vefsíðum FSR, þannig að viðskiptavinir og almenningur geti fylgst með framvindunni.

Fagstjóri verklegra framkvæmda

Fagstjóri verklegra framkvæmda fer með, gagnvart forstjóra, yfirsýn með verklegum framkvæmdum FSR.  Fagstjóri verklegra framkvæmda vinnur með forstjóra, verkefnastjórum, verkkaupum og birgjum að málum er snúa að verklegum framkvæmdum, svo sem úrvinnslu faglegra álitaefna, og hefur aðkomu að  ágreiningsmálum og uppgjöri verka. Fagstjóri verklegra framkvæmda fylgir eftir verkefnavöktun. Fagstjóri verklegra framkvæmda er jafnframt verkefnastjóri.

Verkefnastjórar

Verkefnastjórar sjá um og bera ábyrgð gagnvart forstjóra á framkvæmd þeirra verkefna sem stofnuninni eru falin eða hún tekur sér fyrir hendur á hverjum tíma. Fulltrúi verkefnastjóra situr í Gæðaráði FSR. Sá fulltrúi getur verið fagstjóri verklegra framkvæmda.