Skipurit

Skipurit-FSR-2018

Skýringar með skipuriti FSR

Skipuritið tók gildi 1. maí 2018.

Framkvæmdasýsla ríkisins (FSR) er ein af stofnunum fjármála- og efnahagsráðuneytisins og starfar samkvæmt lögum nr. 84/2001 um skipan opinberra framkvæmda og reglugerð nr. 715/2001 um skipulag opinberra framkvæmda. Hlutverk FSR er að vera leiðandi afl á sviði opinberra framkvæmda með það að markmiði að bæta verklag og auka skilvirkni, hagkvæmni og gæði við framkvæmdir og húsnæðisöflun ríkisins. 

Stofnunin veitir ráðuneytum og ríkisstofnunum þjónustu í tengslum við verklegar framkvæmdir og er hún því í eðli sínu þjónustustofnun. Ekki er sérstök stjórn yfir stofnuninni og er forstjóri ábyrgur gagnvart fjármála- og efnahagsráðherra fyrir rekstri hennar. 

Skipulag FSR byggir á tveimur fagsviðum er sinna kjarnastarfsemi stofnunarinnar, rekstrarsviði er sinnir rekstrartengdum þáttum og stoðþjónustu er sinnir stoð- og sérverkefnum tengt kjarnastarfsemi FSR.

Forstjóri

Forstjóri Framkvæmdasýslunnar ber ábyrgð á að rekstur stofnunarinnar sé í samræmi við fjárlög og langtímaáætlun hennar og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Samkvæmt lögum situr forstjóri í samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir.

Sviðsstjóri fagsviðs frumathugana og áætlunargerðar

Sviðsstjóri fagsviðs frumathugana og áætlunargerðar ber ábyrgð á framvindu og eftirfylgni verkefna FSR á sviði frumathugana og áætlunargerðar eins og kveðið er á um í lögum og reglugerðum. Sviðsstjóri ber ábyrgð á verkefnum FSR á sviði húsnæðisöflunar og skilgreiningu viðmiða þar að lútandi. Sviðsstjóri fer með starfsþróunarmál innan sviðsins og sér um almennt starfsmannahald, starfsmannasamtöl, skipulag fræðsluáætlana og kemur að ráðningum með forstjóra.  Sviðsstjóri ber ábyrgð á mönnun og skipulagi einstakra verkefna, vöktun kostnaðar, framvindu og gæða í verkefnum sviðsins. Hann vinnur einnig sjálfstætt að tilteknum verkefnum eða málaflokkum í samvinnu við forstjóra. Sviðsstjóri situr ásamt forstjóra og öðrum sviðsstjórum í framkvæmdastjórn FSR.

Sviðsstjóri fagsviðs verklegra framkvæmda og skilamats

Sviðsstjóri verklegra framkvæmda og skilamats ber ábyrgð á framvindu og eftirfylgni verkefna FSR á sviði verklegra framkvæmda og skilamats eins og kveðið er á um í lögum og reglugerðum. Sviðsstjóri fer með starfsþróunarmál innan sviðsins og sér um almennt starfsmannahald, starfsmannasamtöl, skipulag fræðsluáætlana og kemur að ráðningum með forstjóra. Sviðsstjóri ber ábyrgð á mönnun og skipulagi einstakra verkefna og vöktun kostnaðar, framvindu og gæða í verkefnum sviðsins. Sviðsstjóri 
ber ábyrgð á samninga- og útboðsmálum í verklegum framkvæmdum á vegum FSR, uppgjöri verklegra framkvæmda og lausn ágreiningsmála þeim tengdum. Hann vinnur einnig sjálfstætt að tilteknum verkefnum eða málaflokkum í samvinnu við forstjóra. Sviðsstjóri situr ásamt forstjóra og öðrum sviðsstjórum í framkvæmdastjórn FSR.

Sviðsstjóri rekstrarsviðs

Sviðsstjóri rekstarsviðs er jafnframt fjármálastjóri stofnunarinnar. Sviðsstjóri rekstrarsviðs hefur umsjón með fjármálum stofnunarinnar og ber ábyrgð gagnvart forstjóra á rekstrarbókhaldi FSR.  Sviðsstjóri rekstrarsviðs veitir öðrum sviðsstjórum aðstoð við gerð verkkaupasamninga og greiðsluáætlana í verkefnum FSR og uppfærslu greiðsluáætlana. Sviðsstjóri rekstrarsviðs sér um og ber ábyrgð á verkbókhaldi og tengdri þjónustu við þau verk sem eru í bókhalds- og greiðsluþjónustu hjá FSR. Ábyrgðin á fjármálalegri stýringu verkanna er hins vegar hjá viðkomandi ráðuneyti og/eða stofnun.   Sviðsstjóri rekstrarsviðs ber ábyrgð á greiningarvinnu, rekstraráætlun, ársuppgjörum, launavinnslu og samskiptum við Fjársýslu ríkisins. Sviðsstjóri fer með starfsþróunarmál innan sviðsins og sér um almennt starfsmannahald, starfsmannasamtöl, skipulag fræðsluáætlana og kemur að ráðningum og launamálum með forstjóra. Sviðsstjóri veitir aðstoð við skipulagningu starfsþróunarmála annarra sviða, árangursmælingar tengt stefnu FSR og umsjón með verkefnavöktun.  Hann vinnur einnig sjálfstætt að tilteknum verkefnum eða málaflokkum í samvinnu við forstjóra. Sviðsstjóri situr ásamt forstjóra og öðrum sviðsstjórum í framkvæmdastjórn FSR.

Stoðþjónusta

Stoðþjónusta er stoðeining sem styður við starfsemi einstakra sviða og heyrir beint undir forstjóra. Starfsmenn stoðþjónustu vinna að tilteknum verkefnum eða málaflokkum í samvinnu við sviðin og forstjóra.

Gæðastjóri

Gæðastjóri sér um og ber ábyrgð á gæðastjórnunarkerfi FSR í samræmi við gæðastjórnunarstefnu stofnunarinnar. Gæðastjóri hefur umsjón með  rekstrarhandbók og ber ábyrgð á að öll gögn sem í henni eru séu réttar útgáfur og hafi verið samþykkt samkvæmt gæðastjórnunarkerfinu. Gæðastjóri sér um að gæðastjórnunarkerfið sé ávallt samkvæmt reglum nýjustu útgáfu staðalsins ISO 9001 og veitir sviðsstjórum og starfsmönnum fræðslu og stuðning við notkun þess Gæðastjóri sér um innri úttektir innan stofnunarinnar og er fulltrúi forstjóra í samskiptum við vottunaraðila. Gæðastjóri getur verið sviðsstjóri eða verkefnastjóri.

Framkvæmdastjórn

Framkvæmdastjórn skipa forstjóri og sviðsstjórar. Hlutverk framkvæmdastjórnar er að stýra daglegum rekstri FSR, móta og innleiða stefnu í málefnum stofnunarinnar og fylgja eftir mælingum tengdum innleiðingu stefnu. Fjallað er um mikilvægar ákvarðanir er varða þjónustu og rekstur stofnunar á fundi framkvæmdastjórnar.